Hvað gæti breyst með Trump?

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump var í gær kosinn forseti Bandaríkjanna og mun hann formlega taka við embætti í janúar næstkomandi. Mikið hefur verið rætt um hvaða breytingar munu fylgja Trump og fer íþróttaheimurinn ekki varhluta af því.

Richard Conway, blaðamaður breska ríkisútvarpsins, hefur tekið til nokkur dæmi um breytingar sem gætu átt sér stað.

Ólympíuleikarnir 2024

Los Angeles er ein þriggja borga sem sækist eftir því að halda Ólympíuleikana árið 2024. Kjör Trumps gæti hins vegar haft mikil áhrif á möguleika borgarinnar til þess að hreppa hnossið, en Alþjóðaóympíunefndin (IOC) mun kjósa um næsta gestgjafa í september næstkomandi. Valið stendur á milli Los Angeles, Parísar og Búdapest.

Francois Hollande, forseti Frakklands, og Thomas Bach, forseti IOC. París …
Francois Hollande, forseti Frakklands, og Thomas Bach, forseti IOC. París er í samkeppni við Los Angeles og Búdapest um að halda ÓL 2024. AFP

Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, er Demókrati og var opinber stuðningsmaður Hillary Clinton. Hann lýsti því yfir að forráðamenn IOC hefðu efasemdir um Trump og forseti nefndarinnar Thomas Bach talaði einnig á þá leið í sumar.

Þar talaði Bach um að sjálfumglaðir einstaklingar sem telja sig yfir aðra hafna væru ekki góð tíðindi fyrir heimsbyggðina. Það var séð sem beint skot á Trump, sem þá var í miðri kosningabaráttu, og sérstaklega áætlanir hans um að banna alla múslima í Bandaríkjunum.

Fyrirætlanir Trumps gætu því haft mikil áhrif á nefndarmenn IOC sem munu kjósa á milli Los Angeles, Parísar og Búdapest; sérstaklega vegna þess fjölþjóðlega hóps keppenda frá öllum heimshornum sem koma saman á Ólympíuleikunum sem þekktir eru fyrir að sameina heimsbyggðina.

Þjóðverjar eru ríkjandi heimsmeistarar í knattspyrnu.
Þjóðverjar eru ríkjandi heimsmeistarar í knattspyrnu. AFP

HM í knattspyrnu 2026

Enn á eftir að velja gestgjafa fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2026 og hafa Bandaríkin lengi verið talin líklegust til þess að verða valin eftir að hafa opinberað vilja sinn til þess að halda mótið.

Forráðamenn Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA hafa í hyggju breytingar á fyrirkomulagi mótsins og ræða þann möguleika að fjölga þjóðum í 40 eða jafnvel 48 á mótinu. Samhliða er áhugi fyrir því að ríki taki höndum saman um að halda mótið. Þar hefur verið talað um sameiginlegt HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Trump talaði sem kunnugt er um það að hann skyldi reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og senda alla Mexíkóa sem búsettir væru norðan landamæranna aftur til síns heima. Það hefur skiljanlega áhrif á samband ríkjanna, en til þess að þjóðum geti verið úthlutað viðburðum á borð við HM í knattspyrnu þurfa ríkisstjórnir þeirra að standa saman við ýmsar skuldbindingar sem fylgja. Erfitt er að sjá að slíkt verði uppi á teningnum á milli Bandaríkjanna og Mexíkó.

Reynt hefur verið að markaðssetja NFL-deildina víða um heim.
Reynt hefur verið að markaðssetja NFL-deildina víða um heim. AFP

Útbreiðsla bandarískra íþróttaviðburða

Trump hefur talað um að rifta fjölmörgum verslunarsamningum við önnur ríki. Forráðamenn NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta hafa fært út kvíarnar síðustu ár og hafa leikir deildarinnar farið fram í borgum víða um heim, til að mynda London, Barcelona, Sjanghæ og Berlín. Er það ekki síður gert til þess að stækka markaðshlutdeild íþróttarinnar utan Bandaríkjanna.

Hagfræðingar hafa hins vegar spáð að í uppsiglingu gæti verið hálfgert viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og annarra ríkja ef viðskiptasamningum verði rift. Trump talaði um að setja allt að 45% toll á vöruskipti við Kína, svo ólíklegt er að stjórnvöld þar í landi verði opin fyrir því að halda bandaríska íþróttaviðburði til þess að auka umsvif Bandaríkjanna þar í landi.

Sepp Blatter var forseti FIFA þegar hneykslismálið kom upp.
Sepp Blatter var forseti FIFA þegar hneykslismálið kom upp. AFP

Rannsókn á spillingarmáli FIFA

Á síðasta ári komu í ljós víðtækt hneykslismál innan FIFA og fer rannsókn að stórum hluta fram í Bandaríkjunum þar sem spilltir stjórnendur knattspyrnusambandsins hafa verið sóttir til saka. Mörg mál eru hins vegar enn opin og gæti kjör Trumps haft áhrif á framvinduna.

Talið er að Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, muni taka við sem dómsmálaráðherra af Lorettu Lynch, sem gegnt hefur embættinu frá því í apríl í fyrra. Hún hefur lagt mikla áherslu á það að kryfja hneykslismál FIFA til mergjar þar sem meðal annars tveir fyrrverandi varaforsetar sambandsins bíða dóms.

Hvort Giuliani, eða hver sá sem mun taka við embættinu, sé jafn áhugasamur um að leiða þessi mál til lykta eins og Lynch hefur verið er hins vegar óvíst og ekki hægt að gera annað en að bíða og sjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert