Þegar kemur að pólitískri hugmyndafræði er Donald Trump óskrifað blað og því kann að skipta sköpum varðandi stefnu hans í ýmsum málaflokkum hverja hann skipar í ríkisstjórn. Leiða má líkur að því að nú bíði margir stuðningsmenn Trumps, sem stóðu við hlið hans þegar fáir aðrir vildu, eftir því að verða úthlutað bitastæðu embætti.
Stöðurnar sem Trump þarf að fylla eru fjölmargar en fregnir herma að Reince Priebus, formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins, sem stóð við bakið á Trump eftir að hann hlaut útnefningu flokksins, sé líklegur til að verða hægri hönd viðskiptajöfursins í Hvíta húsinu, svokallaður „chief of staff.“
Í ræðu sinni á miðvikudag minntist Trump á þrjá fyrrverandi andstæðinga; Chris Christie, ríkisstjóra New Jersey, Mike Huckabee, fyrrverandi ríkisstjóra Arkansas, og taugaskurðlækninn Ben Carson. Allir gætu átt von á embætti, en Christie var meðal fremstu stuðningsmanna Trumps þegar leið á kosningabaráttuna og birtist með honum á sviðinu í gær.
Frá því var greint í sumar að Donald Trump jr. hefði sett sig í samband við John Kasich, ríkisstjóra Ohio, og boðist til að gera hann að valdamesta varaforseta sögunnar. Það hlutverk fellur nú Mike Pence í skaut, en vegna reynslu- og þekkingarleysi Trumps er kemur að stjórnmálum má gera úr því skóna að hann muni spila stærra hlutverk en flestir forverar hans.
Fregnir herma að horft sé til Newt Gingrich, fyrrverandi forseta fulltrúadeildar bandaríska þingsins, sem utanríkisráðherra og þá hefur Trump sjálfur haft orð á því að veita Söruh Palin ráðherrastól.
Þá er ónefndur Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, sem var meðal ötulustu málsvara Trumps í aðdraganda kosninganna.
Einnig þykir líklegt að Trump horfi til samstarfsmanna sinna úr viðskiptalífinu, t.d. Stevens Munchins, sem sá um fjármögnun kosningabaráttunnar.