Donald Trump nýtti sér reiði hnignandi millistéttar sem er búin að fá nóg af ráðandi öflum í viðskiptalífinu, stjórnmálum og fjölmiðlum, segir Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont. Það eru ekki bara fátækir hvítir karla sem kusu Trump heldur menntað fólk sem tilheyrir millistéttinni.
Sanders keppti við Hillary Clinton um að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins en varð að lúta í lægra haldi þrátt fyrir stuðning meðal ungs fólks. Hann segist vera reiðubúinn að vinna með Trump að því að bæta hag verkafólks í Bandaríkjunum.
Hann er hins vegar á öndverðum meiði við flest það sem Trump segir og stendur fyrir. Má þar nefna rasisma, karlrembu, útlendingahatur og andstöðu við umhverfismál.
Helmingur millistéttar Bandaríkjanna, en til hennar heyra þeir sem eru með yfir 100 þúsund Bandaríkjadali í árstekjur, kaus milljarðamæringinn sjötuga, samkvæmt útgönguspám UsaToday.
43% fólks sem er með framhaldsskólamenntun kaust Trump en þeir sem hafa lokið framhaldsnámi í háskóla kusu flestir Clinton.
Við vildum senda þau skilaboð að við værum búin að fá nóg af miðstýrðu valdi í lífi okkar, segir Rolando Chumaceiro, heimilislæknir sem býr í White Plains-hverfi í New York en hverfið er heimili auðugs fólks. Hann segist þekkja vandamálin sem fylgja Trump og dregur í efa margt sem hann segir. Ekki síst í garð kvenna en á heildina litið væri Trump betri kostur en Clinton. Hún komi úr ráðandi stétt og engar breytingar hefðu orðið á yfirvaldslegum ákvörðunum hefði hún verið kjörin forseti. „Við höfum fengið nóg af því,“ segir Chumaceiro í samtali við AFP.
Lágtekjufólk hallaði sér frekar að Clinton en stuðningur þess við forsetaframbjóðanda Demókrata er mun minni nú en árið 2012 þegar Barack Obama var endurkjörinn. Ástæðan er einkum mikill kostnaður við Obamacare, heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
Líkt og Sanders, sem hafnaði áhrifum spilltrar vel stæðrar elítu í stjórnmálum og hvatti til þess að boðið væri upp á ókeypis framhaldsmenntun og heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá beindi Trump sjónum sínum að Bandaríkjamönnum sem telja að þeir hafi verið skildir útundan vegna alþjóðavæðingarinnar og aukinnar misskiptingar auðs.
En ólíkt Sanders lagði Trump til að lækka skatta á þá ríkustu og segir að með því að hafa tekist sjálfum að komast hjá því að greiða milljónir Bandaríkjadala í skatta sýni best hversu klár hann er.
Eftir tap fyrir Clinton hvatti Sanders fólk til þess að kjósa Clinton og sagði Trump hættulegan lýðskrumara.
Annar Demókrati sem þótti vænlegur kostur sem forsetaefni, Elizabeth Warren, öldungadeildaþingmaður Massachusetts, segist vera afar vonsvikin með sigur Trumps en hún var líka jákvæð í hans garð. Hún segir að Trump hafi heitið því að byggja upp efnahagskerfi landsins fyrir verkamannastéttina og það loforð valdi því að hún sé reiðubúin til þess að starfa með honum og leggja ágreining þeirra til hliðar.
Óánægja fólks með stöðu mála í Bandaríkjunum er helsta ástæða þess að fólk í dreifðari byggðum Bandaríkjanna kaus Trump.
„Það er til heimur fyrir utan Austurströndina og strönd Kaliforníu sem enginn hefur áhuga á,“ segir Sam Abrams, prófessor í stjórnmálafræði við Sarah Lawrence College í Bronxville, New York. Hann bætir við að þar skilji að þá sem eiga og þá sem ekki eiga. Lífsbaráttan sé hörð á þessum svæðum og þegar þú berst í bökkum þá fyllist þú reiði og Trump verður tákn reiðinnar.
Michigan, Norður-Karólína og Wisconsin eru til að mynda ríki ár sem sigur Trumps kom mörgum að óvörum. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2004 sem íbúar Wisconsin kjósa frekar Repúblikana en Demókrata í forsetakosningum.
Mun fleiri hvítir kjósendur mættu á kjörstað en búist hafði verið við og Trump fékk fleiri atkvæði meðal hefðbundinna Repúblikana en Mitt Romney fékk árið 2012. Eins hafa aldrei áður jafn margir frá rómönsku Ameríku mætt á kjörstað. Tveir þriðju þeirra kustu Clinton en 29% kusu Trump samanborið við að Romney fékk 27% atkvæða þeirra á sínum tíma. Virðist engu hafa skipt hvað Trump sagði um Mexíkóa og innflytjendur. Kúbanskir Bandaríkjamenn stóðu með Trump og eins þeir sem eru út frá þjóðfélagslegu sjónarmiði íhaldssamir.
Á meðan meirihluti svartra Bandaríkjamanna kaus Clinton þá fékk hún samt sem áður atkvæði frá færri úr þessum hópi en Obama árið 2008 og 2012. Innflytjendur frá Asíu, svartir og gyðingar sem hafa fagnað sigri Trumps segja ekkert hæft í því að hann sé rasisti á nokkurn hátt.
Eins hefur komið fram að fjölmargar konur studdu Trump en 42% kvenna kusu Trump, samkvæmt útgönguspá CNN. Alls kusu 53% hvítra kvenna frambjóðanda Repúblikana og samkvæmt CNN er meirihluti þeirra (62%) ómenntaður. Það er hefur ekki lokið framhaldsnámi. Samkvæmt þessu er ljóst að niðrandi ummæli Trumps og framkoma hans í garð kvenna höfðu ekki neikvæð áhrif á hug kvenna í hans garð.
Yngra fólkið virðist hafa kosið Clinton en eldra fólk Trump en kjörsóknin er mest hjá fólki á aldrinum 45-64 ára. Þar munar miklu á frambjóðendum, 53% kusu Trump á meðan 44% kusu Clinton.
Niðurstaðan liggur ljós fyrir - Donald Trump verður næsti forseti Bandaríkjanna þó svo að margirséu ekki sáttir við það eins og sést á fjölmennum mótmælum í borgum landsins, allt frá Boston til Los Angeles. En minna hefur farið fyrir mótmælum í dreifðari byggðum landsins sem kannski segir allt sem segja þarf.