Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, heimsótti Bandaríkjaþing í dag og lýsti því yfir að heilbrigðismál, landamæraeftirlit og atvinnumál yrðu í forgangi hjá sér þegar hann hæfi störf í Hvíta húsinu í janúar.
Trump og Mike Pence, væntanlegur varaforseti Bandaríkjanna, settust niður með Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar þingsins, og Mitch McConnell, leiðtoga meirihlutans í öldungadeildinni, til að ræða forgangsatriði Trumps.
Samskipti Ryans og Trumps voru stirð á meðan á kosningaherferð hins síðarnefnda stóð. Ryan kvaðst í síðasta mánuði ekki ætla að verja Trump eftir að ósæmileg ummæli hans í garð kvenna voru gerð opinber.
Þrátt fyrir þetta virtist Ryan vingjarnlegur og kurteis þegar þeir hittust í þinginu. Fyrst fengu þeir sér hádegismat og síðan hittust þeir á skrifstofu hans.
„Við áttum mjög nákvæman fund,“ sagði Trump að fundinum loknum.
„Eins og þið vitið þá ætlum við að sjá til þess að fólk hafi efni á heilbrigðisþjónustu. Við ætlum að láta mikið að okkur kveða í heilbrigðismálum.“
Trump bætti við að hann og Repúblikanaflokkurinn, sem er í meirihluta þingsins, ætluðu að framkvæma „algjörlega magnaða hluti fyrir bandarískan almenning“. Hann kvaðst ekki geta beðið eftir því að hefja störf.
„Við ætlum að skoða innflytjendamál gaumgæfilega,“ sagði hann og nefndi atvinnumálin einnig til sögunnar án þess að fara út í nánari útfærslur á þessum málaflokkum.