Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, kann að óska eftir ráðgjöf frá Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þetta sagði Trump í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS í gær. Trump atti kappi í forsetakosningunum sem eru nýafstaðnar við eiginkonu Clintons, Hillary Clinton, og hafði sigur. Fjallað er um þetta í frétt AFP.
Fram kemur í fréttinni að Bill Clinton hafi hringt í Trump eftir kosningarnar og að farið hafi vel á með þeim. Ennfremur segir að ummæli Trumps minni á það sem hann sagði eftir fund með Barack Obama, fráfarandi forseta, í vikunni. Þar sagðist Trump hlakka til þess að eiga í frekari samskiptum við Obama í framtíðinni og njóta ráðgjafar hans.
Spurður hvort hann hefði í hyggju að leita ráða hjá Bill Clinton svaraði Trump: „Ég myndi svo sannarlega íhuga það. Hann er mjög vel gefinn náungi, ég meina, þetta er mjög vel gefin fjölskylda.“
Trump ræddi einnig um símtal sitt við Hillary Clinton eftir kosningarnar í viðtalinu. „Þetta var indælt símtal, og þetta var erfitt símtal fyrir hana, ég meina, ég get ímyndað mér það. Erfiðara fyrir hana en það hefði verið fyrir mig. Ég meina, þetta hefði verið mjög, mjög erfitt fyrir mig. En hún hefði ekki getað verið indælli. Hún sagði bara: Til hamingju, Donald, vel af sér vikið.“
Trump hefur einnig sagt að hann væri reiðubúinn að skoða það að halda eftir hluta af heilbrigðislöggjöf Obama sem hann sagðist ætla að afnema í kosningabaráttunni. Hann sagði í viðtalinu að ef löggjöfin yrði afnumin kæmi strax eitthvað í staðinn. Ekki kæmi til þess að löggjöfin yrði afnumin án þess að eitthvað kæmi í staðinn.