Kennir Comey um ósigurinn

Hillary Clinton flytur ræðu á miðvikudaginn þar sem hún viðurkennir …
Hillary Clinton flytur ræðu á miðvikudaginn þar sem hún viðurkennir ósigur sinn. AFP

Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi bandaríska Demókrataflokksins, sakaði James Comey, forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, um að hafa haft af henni sigurinn í forsetakosningunum í Bandaríkjunum fyrr í þessari viku á símafundi með helstu styrktaraðilum framboðs hennar sem fram fór í dag.

Fréttaveitan Reuters greinir frá þessu en heimildarmennirnir eru tveir af þeim styrktaraðilum sem tóku þátt í símafundinum. Flest benti til þess að Clinton hefði betur í kosningunum en mótherji hennar Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Þar á meðal flestar skoðanakannanir. Clinton hefur látið lítið fyrir sér fara eftir að hafa flutt ræðu á miðvikudaginn þar sem hún viðurkenndi ósigur sinn.

Fram kemur í fréttinni að Comey hafi kostað hana sigurinn með ákvörðun sinni um að senda bréf til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fáeinum dögum áður en kosningarnar fóru fram þar sem hann tilkynnti þinginu að hann ætlaði að hefja að nýju rannsókn á því hvort hún hefði misfarið með trúnaðarupplýsingar með notkun eigin tölvupóstþjóns á meðan hún gegndi embætti utanríkisráðherra á árunum 2009-2012.

Comey tilkynnti viku seinna að hann hefði farið yfir tölvupósta Clinton og teldi í kjölfar þess að eftir sem áður væri ekki ástæða til þess að sækja hana til saka. En pólitískt hafði málið slæmt áhrif á framboð Clinton að því er segir í fréttinni.

Clinton sagði við stuðningsaðila sína að Trump hefði tekist að nýta sér báðar yfirlýsingar Comeys til árása á hana. Síðari tilkynningin hefði styrkt stuðningsmenn Trumps í þeirri trú að stjórnkerfið starfaði í hennar þágu og hvatt þá til að mæta á kjörstað.

James Comey, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI.
James Comey, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert