Segir líkindin við Trump „augljós“

Berlusconi og Trump.
Berlusconi og Trump. AFP

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, segir líkindin milli sín og Donalds Trumps, nýkjörins forseta Bandaríkjanna, vera „augljós“. „Það eru nokkur augljós líkindi með okkur þó svo að saga mín úr viðskiptalífinu sé nokkuð frábrugðin Trumps, sem ég hef aldrei hitt,“ sagði Berlusconi.

Ítalskir grínistar hafa stokkið á líkindin milli forsætisráðherrans fyrrverandi og verðandi forseta Bandaríkjanna. Báðir eru þeir umdeildir, með bakgrunn í viðskiptalífi áður en þeir fóru í pólitík og svo er erfitt að líta fram hjá appelsínugula húðlitnum sem hefur verið töluvert fjallað um í tilfellum þeirra beggja, sérstaklega ef þú ert grínisti.

Bæði Berlusconi og Trump hafa staðið í dómsmálum og skattrannsóknum vegna fyrirtækja í þeirra eigu. Trump hefur þó ekki verið sakfelldur eins og Berlusconi sem steig á svið stjórnmálanna eftir að hafa verið umsvifamikill á fjölmiðlamarkaði. Bakgrunnur Trumps er aftur á móti fasteignamarkaðinum.

Tíu ár eru á milli þeirra, Berlusconi er áttræður en Trump er 70 ára. Trump er metinn á 3,7 milljarða bandaríkjadala skv. Forbes. Berlusconi-fjölskyldan er nokkuð ríkari samkvæmt fjölmiðlinum en Forbes metur hana á 5,9 milljarða bandaríkjadala.

Þá hafa Trump og Berlusconi báðir verið sakaðir um kynferðislega áreitni gegn konum og hafa ratað í fjölmiðla fyrir málflutning sinn. Trump oftar en einu sinni fyrir ummæli sín t.d. í garð kvenna en Berlusconi m.a. fyrir að hafa kallað Barack Obama „tanaðan“ þegar hann varð fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna árið 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka