Trump skipar í fyrstu stöðurnar

Reince Priebus, vinstra megin, og Steve Bannon.
Reince Priebus, vinstra megin, og Steve Bannon. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur skipað í fyrstu embættisstöður ríkisstjórnar sinnar. Reince Priebus, formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins, mun gegna stöðu starfsmannastjóra Hvíta hússins.

Steve Bannon, frumkvöðull á sviði samfélagsmiðla sem stjórnaði kosningabaráttu Trumps síðustu mánuðina, verður þá aðalskipuleggjandi og háttsettur ráðgjafi forsetans.

„Ég er hæstánægður með að hafa þennan mjög árangursríka hóp áfram með mér við stjórn landsins,“ segir Trump í tilkynningu.

„Steve og Reince eru virkilega hæfir leiðtogar sem hafa unnið vel saman í kosningabaráttunni, og leiddu okkur til sögulegs sigurs. Nú mun ég hafa þá báða með mér í Hvíta húsinu þegar við vinnum að því að gera Bandaríkin stórkostleg á ný.“

Talið er að Priebus, sem gamalreyndur stjórnmálamaður innan flokksins, geti styrkt sambönd Trumps við aðra leiðtoga repúblikana og þá sérstaklega Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar þingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka