Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur hvatt Bandaríkjamenn til að gefa Donald Trump tíma til að aðlagast þeirri ábyrgð sem fylgir forsetaembættinu. Á sínum fyrsta blaðamannafundi síðan úrslit forsetakosninganna lágu fyrir, varaði Obama þó jafnframt við því að væntingar Trumps myndu breytast þegar hann gerði sér grein fyrir þunga starfsins.
Obama, sem átti fund með Trump í síðustu viku, sagðist sannfærður um að síðarnefnda væri alvara þegar hann segist ætla að verða forseti allra Bandaríkjamanna en skoraði jafnframt á hann að freista þess að ná til þeirra sem sem væru uggandi í kjölfar hatrammrar kosningabaráttu.
„Ég held ekki að hann sé hugmyndafræðilegur, ég held að hann sé pragmatískur að þessu leyti og það kemur sér vel fyrir hann svo lengi sem hann hefur gott fólk í kringum sig og hefur gott skyn fyrir því hvert hann stefnir,“ sagði forsetinn fráfarandi.
Obama sagðist telja að Trump tæki við embætti með færri niðurnegld stefnumál en margur forsetinn. „Hef ég áhyggjur?“ sagði hann. „Algjörlega, auðvitað hef ég áhyggjur. Ég og hann erum ósammála um ótal málefni.“
Forsetinn sagði ekki við hæfi að hann tjáði sig um allar þær ráðningar og útnefningar sem Trump ætti fyrir höndum, þar sem það færi ekki saman við að gera stjórnarskiptin eins auðveld og mögulegt væri.
„Ég tel að það sé mikilvægt að við leyfum honum að taka eigin ákvarðanir. Bandaríska þjóðin mun dæma um það á næstu tveimur árum hvort henni líkar það sem hún sér.“
Hann sagði forsetaembættið vekja menn og Trump myndi brátt uppgötva að raunveruleikinn félli ekki alltaf að afstöðu manna til málefna.
Spurður um skapgerð Trump, sem Obama hefur ítrekað gagnrýnt, sagði forsetinn:
„Það eru ákveðin skapgerðareinkenni sem munu ekki þjóna honum vel nema hann geri sér grein fyrir þeim og leiðrétti þau,“ sagði Obama og benti á að röng ummæli forseta Bandaríkjanna gætu haft víðtæk áhrif út um allan heim.
„Ég held að hann geri sér grein fyrir að þetta er öðruvísi,“ sagði hann um Trump.
Obama greindi frá því að Trump hefði sagst myndu viðhalda NATO-samstarfinu. Þá sagðist hann hafa sagt Trump að það skipti máli að hann rétti hópum sem styðja hann ekki sáttarhönd.
„Ég tel að það sé mikilvægt að gefa honum svigrúm til þess, það tekur tíma,“ sagði Obama.