„Trump er ekki óféti“

Nigel Farage, leiðtogi Ukip og einn helsti baráttumaður fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu,Brexit, segir að Donald Trump sé ekki óféti og hvetur bresku ríkisstjórnina til þess að bæta tengslin við hann. Utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, tekur í svipaðan streng.

Johnson segir að Trump sé maður sem Bretar og Evrópusambandið geti átt viðskipti við. Hann sé samningamaður og það eigi eftir að koma sér vel fyrir Breta og ríki Evrópusambandsins. Þetta kom í máli ráðherrans þegar hann mætti á fundi utanríkisráðherra ESB-ríkjanna í morgun eftir að hafa sleppt því að mæta á fund þeirra í gærkvöldi þar sem nýlegt kjörTrumps í embætti forseta Bandaríkjanna var aðal umræðuefnið.

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Lítur á kjör Trumps sem tækifæri

Johnson segir að bíða þurfi eftir hugmyndum Bandaríkjamanna en líta beri á kjör Trumps sem tækifæri. Ýmsir þjóðarleiðtogar í Evrópu óttast að Trump standi við stóru orðin um að hann efist um að fyrirskipa her Bandaríkjanna að verja bandalagsríki NATO ef Rússar réðust á það. Hann myndi til dæmis fyrst gera athugun á því hvað viðkomandi aðildarríki legði fram til bandalagsins áður en Bandaríkjamenn skærust í leikinn. Þessi afstaða gengur gegn fimmtu grein stofnsáttmála NATO um að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll.

Federica Mogherini, sem fer utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, boðaði til kvöldverðarfundar ráðherranna í gærkvöld þar sem umræðuefnið voru viðbrögð ESB við kosningunum. Johnson neitaði að mæta í boðið og sagði það senda röng skilaboð til nýja forsetans.

Mogherini sagði eftir fundinn í gærkvöldi að hún hlakki til samstarfsins við nýja ríkisstjórn Bandaríkjanna en varar við því að ESB geti ekki bara setið og beðið eftir því að sjá hvað hún leggi til. Allt of mikið sé í húfi til þess. Til að mynda bjóði efnahagsástandið í heiminum ekki upp á það. 

Farage skrifar um fund sinn með Trump um helgina í Daily Telegraph í dag. Hann er fyrsti breski stjórnmálamaðurinn sem hittir Trump eftir forsetakosningarnar. „Ég held að Trump forseti verði ekki það óféti sem einhverjir óttast,“ skrifar Farage. Hann segir að Trump hafi komið ákaflega vel fyrir og íhugull í viðræðum þeirra í gær. 

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP
Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert