Trump leggur drög að fyrstu dögunum

Eintak af Global People. Líkt og sjá má er aðalumfjöllunarefni …
Eintak af Global People. Líkt og sjá má er aðalumfjöllunarefni blaðsins sigur Trump í forsetakosningunum vestanhafs. AFP

Donald Trump, tilvonandi forseti Bandaríkjanna, ræddi í gær við Xi Jinping, forseta Kína, í síma og er sagður freista þess að „ná utan um“ utanríkismálastefnu Bandaríkjanna áður en hann tekur við embætti.

Á sama tíma stendur fyrir dyrum síðasta opinbera heimsókn Baracks Obama, fráfarandi forseta, til Evrópu. Obama er sagður munu leitast við að hughreysta leiðtoga álfunnar í kjölfar kosningasigurs mannsins sem Obama hefur sagt „óhæfan“ til að leiða öflugasta ríki heims.

Trump hefst nú við í Trump Tower á Manhattan, þar sem hann vinnur að því að fylla öll þau embætti og störf sem losna við stjórnarskiptin. Þegar hefur verið tilkynnt að Reince Pribus verður hægri hönd Trumps í Hvíta húsinu, svokallaður chief of staff, sem hefur gjarnan verið þýtt „starfsmannastjóri.“ Sú þýðing er afleit, þar sem starfið felur í sér mun meiri ábyrgð og völd en titillinn gefur til kynna.

Þá mun hinn umdeildi Steve Bannon fara fyrir stefnumótun. Bannon er stjórnarformaður íhaldsmiðilsins Breitbart News og leiðtogar gyðinga og múslima hafa þegar lýst yfir áhyggjum vegna ráðningar hans, þar sem Bannon þykir hafa talað máli svokallaðrar alt-right-hreyfingar.

Trump hefur síðustu daga átt samtöl við leiðtoga annarra ríkja; bandamenn og andstæðinga. Hann ræddi við Xi Jinping á sunnudag en fasteignajöfurinn fór oftsinnis ófögrum orðum um Kína í kosningabaráttunni og hótaði m.a. að leggja 45% toll á kínverskar vörur.

Mótmælendur safnast saman við Trump Tower.
Mótmælendur safnast saman við Trump Tower. AFP

Samkvæmt teymi Trumps sagði hann hins vegar í samtalinu við Xi að hann teldi að samband þeirra yrði hið traustasta og þá sammæltust þeir um að eiga fund hið fyrsta.

Priebus sagði í samtali við Good Morning America að utanríkismálin væru eitt af forgangsverkum Trumps, auk heilbrigðismála, innflytjendamála og skattamála. Hann sagði Trump afar yfirvegaðan og reiðubúinn til að leiða bandarísku þjóðina.

„Ótrúlega áhugavert“

Trump hefur verið ófeiminn við að viðhafa stór orð um tengsl Bandaríkjanna við umheiminn en í kosningabaráttunni talaði hann m.a. gegn fríverslun, kallaði Atlantshafsbandalagið „úrelt“, lagði til að Japan og Suður-Kórea eignuðust eigin kjarnorkuvopnabúr og lofaði Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Í síðustu viku átti hann 90 mínútna fund með Obama í Hvíta húsinu, þar sem þeir áttu „ótrúlega áhugavert“ samtal um „þá hluti sem eru erfiðir núna,“ sagði Trump í 60 mínútum, fréttaskýringaþætti CBS, sem sýndur var í gær.

Það mun koma í ljós hvernig þeim málum sem Trump talaði fyrir í aðdraganda kosninganna mun farnast þegar raunveruleikinn tekur við, en ráðning Bannons þykir benda til þess að Trump hyggist halda áfram að ögra.

Hvað varðar innanríkismálin sagði Priebus að fyrstu 100 dagana myndi forsetinn einbeita sér að innflytjendamálum, breytingum á skattkerfinu og því að kippa Obamacare úr sambandi.

„Ég tel okkur hafa tækifæri til að gera allt þetta þar sem við ráðum fulltrúadeildinni og öldungadeildinni og höfum ákaft þing sem er reiðubúið til að koma hlutunum í verk,“ sagði Priebus.

Mótmælt í Las Vegas.
Mótmælt í Las Vegas. AFP

Það fellur einnig í hlut Trumps að fylla autt sæti í Hæstarétti og treysta á ný íhaldssaman meirihluta í kjölfar andláts Antonins Scalia í febrúar sl.

„Dómararnir verða fylgjandi lífi,“ sagði Trump. „Hvað varðar byssuástandið, þá verða þeir fylgjandi öðrum viðaukanum,“ bætti hann við og vísaði þar til stjórnarskrárvarins réttar Bandaríkjamanna til að bera vopn.

Trump sagði að allt að 3 milljónum ólöglegra innflytjenda yrði vísað úr landi, þ.e. þeim sem brotið hefðu af sér í Bandaríkjunum. Þá viðurkenndi hann að margumræddur múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó yrði aðeins girðing á köflum.

Um hræðslu margra Bandaríkjamanna í kjölfar sigurs hans í forsetakosningunum sagði Trump: „Ekki vera hrædd. Við ætlum að endurheimta landið okkar.“

Hann sagðist dapur vegna fregna um ósæmilega hegðun og árásir í garð rómanskra Bandaríkjamanna og múslima og sagði gerendunum að „stoppa“.

Efnt hefur verið til fjölmennra mótmæla víða um Bandaríkin vegna sigurs Trumps, en hann hefur mildað afstöðu sína til nokkurra mála og m.a. sagst munu halda í einhverja þætti Obamacare og ekki freista þess að hnekkja lögleiðingu samkynja hjónabanda.

Þá hefur hann sagt að hann muni ekki þiggja laun sem forseti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert