Donald Trump hefur framið svik og kann að skilja við marga í Bandaríkjunum eins og dauða skepnu sem hefur orðið fyrir bíl. Þetta segir ein þeirra kvenna sem var fyrst til að stíga fram og ásaka Trump um kynferðislegt ofbeldi.
Jill Harth er fyrrverandi samstarfsfélagi Trumps. Hún hefur sagt frá því að Trump hafi króað hana af þegar hann var að sýna henni fasteign í hans eigu, ýtt henni upp að vegg í einu af barnaherbergjunum og þreifað á henni.
Í kæru Harth gegn Trump er hann sakaður um tilraun til nauðgunar. Atvikið átti sér stað 1993 en kæran var lögð fram 1997. Hún lét hana niður falla, en hefur ávallt staðið við frásögn sína.
„Ég er enn að reyna að komast yfir það að maðurinn sem var vanur að pirrast á því þegar ég sýndi „hjálpinni“ virðingu og vinsemd og sem kynnti fólk fyrir mér með því að segja mér hversu margra milljóna virði það væri, sé núna forseti Bandaríkjanna,“ sagði Harth í samtali við Guardian.
„Ég fylgdist með honum dæma konur eingöngu út frá unglegu útliti sínu og aðdráttarafli, hvort sem þær voru þátttakendur í fegurðarasamkeppni eða ekki. Hann var kjörinn af iðnum verkamönnum og -konum, sama fólki og hann sýndi algjöra lítilsvirðingu þegar ég vann með honum og varði persónulegum tíma með honum.“
Hún sagðist vera hrygg yfir því að kjósendur hefðu fallið fyrir stórukarlastælunum í Trump.
„Hann lofaði stórum hlutum og stóð aldrei við þá. Hann snérist gegn mér og særði mig og aðra vini og kollega sem reyndust honum vel, sem aðstoðuðu hann, gerðu það sem þeir lofuðu að gera og voru trúir honum og studdu hann. Hann notaði mig og kollega mína í þágu eigin hagsmuna og er núna að nota bandarísku þjóðina til að öðlast það vald og skjall sem hann hefur alltaf þráð.“