Eyðilegging hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams á fornu borginni Nimrud í Írak virðist vera algjör, en tveir dagar eru nú frá því að hersveitir Írakshers náðu borginni úr höndum samtakanna.
Stór hluti Nimrud, sem taldist sannkallað menningardjásn og mikilvægar minjar um Assyríutímabilið, er nú rústir einar. Risastyttur hafa verið mölbrotnar og ferhyrnd og stölluð hof, svo nefnd siggurathof, eru nú aðeins brotabrot af sinni upprunalegu stærð.
Borgin var stofnuð á þrettándu öld fyrir Krist og er við Tígris-ána í um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá Mósúl, annarri stærstu borg Íraks, sem Íraksher vinnur nú að því að ná úr höndum hryðjuverkasamtakanna.
Í Nimrud var m.a. að finna þekkt borgarvirkis grafhaug, hallir og grafir assyrískra konunga, guðahof, risastyttur af ljónum, vængjuðum nautum og víðfrægar freskur.
„Þegar maður kom hingað áður, þá var auðvelt að sjá fyrir sér lífið eins og það var. Núna er ekkert eftir,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Ali al-Bayati, hermanni eins þeirra ættflokka sem taka þátt í áhlaupinu á Mósúl og sem komu til Nimrud í gær.
„Þetta er 100% eyðilegging,“ sagði al-Bayati. „Að missa Nimrud finnst mér vera sársaukafyllra en að missa mitt eigið heimili.“
Í mars í fyrra tilkynnti ferðamálaráðuneyti Íraks að hryðjuverkasamtökin hefðu notað jarðýtur og aðrar þungavélar til að eyðileggja svæðið. Mánuði síðar birti Ríki íslams myndbandsupptökur sem sýnir vígamenn samtakanna brjóta styttur og freskur með sleggjum og sprengja að því loknu þær minjar sem eftir stóðu.
UNESCO sagði í fyrra eyðileggingu Nimrud vera stríðsglæp og að forsvarsmenn Ríki íslams virtust staðráðnir í að þurrka út allar minjar um sögu Íraks. Samtökin hafa hafnað allri list og arkitektúr sem skurðgoðadýrkun og hafa þau eyðilagt fjölda annarra menningarminja í Írak og Sýrlandi.