Fyrrverandi efnahagsmálaráðherra Frakklands, Emmanuel Macron, staðfesti í dag að hann ætlaði að bjóða sig fram í embætti forseta landsins. Forsetakosningar fara fram í Frakklandi í vor.
Emmanuel Macron er 38 ára gamall, fæddur 21. desember 1977 í Amiens í Norður-Frakklandi. Foreldrar hans eru Jean-Michel Macron, prófessor í taugasjúkdómafræði við háskólann í Picardy og Françoise Macron-Noguès, læknir. Samkvæmt því sem fram hefur komið í viðtölum var Macron náinn ömmu sinni og dvaldi löngum á heimili hennar.
Macron, sem lærði á píanó í 10 ár, lauk BA-námi í heimspeki við Paris-Ouest Naterre La Défense háskólann og lauk síðar námi í stjórnsýslufræðum og MA námi í heimspeki þar sem lokaritgerð hans fjallaði um Niccolò Machiavelli og Georg Wilhelm Friedrich Hegel. Að námi loknu starfaði hann í efnahagsmálaráðuneytinu sem sérfræðingur í fjármálum og fór þaðan til starfa hjá fjárfestingabankasviði Rothschild & Cie bankans. Þar sá hann meðal annars um samruna stórfyrirtækjanna Nestlé og Pfizer.
Macron var félagi í Sósíalistaflokknum (PS) frá 2006 til ársins 2009. Hann hóf störf fyrir Hollande forseta Frakklands árið 2012 en hafði frá 2011 aðstoðað Hollande við framboðið og var skipaður iðnaðar- og efnahagsmálaráðherra í ríkisstjórn Manuels Valls í ágúst 2014. Hann sagði af sér embætti 30. ágúst 2016 og stofnaði um svipað leyti nýjan stjórnálaflokk, miðjuflokkinn En Marce eða Hreyfinguna á íslensku.
Ef Macron verður kjörinn forseti þá verður hann yngstur til þess að gegna því embætti í Frakklandi. En leiðin í Élysée-höll verður væntanlega þyrnum stráð því það var hans hlutverk í ríkisstjórn Frakklands að berjast við leiðtoga stéttarfélagana sem og þá sem eru mest til vinstri innan Sósíalistaflokkinn þegar kom að lengd vinnuvikunnar og breytingar á vinnulöggjöfinni.
Þykir þeim Macron of hallur undir viðskiptalífið og þegar hann kom fram á opinberum fundi í júní köstuðu verkmenn eggjum í hann og létu fúkyrðin streyma.
Undanfarna mánuði hefur hann farið víða til þess að kynna En Marche og kanna baklandið fyrir framboð til embættis forseta. Eiginkona hans, Brigitte Trogneux, er yfirleitt með í för en hann varð ástfanginn af henni aðeins 16 ára. Þá var hún kennari í menntaskólanum sem hann var í en Trogneux er 20 árum eldri en Macron. Þau gengu í hjónaband árið 2007 og búa þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi hjá þeim. Í viðtali við Paris Match fyrr á árinu lýsti hún því þegar Macron hafi sagt við hana 17 ára gamall að það skipti engu hvað hún geri - hann ætli sér að kvænast henni.
Nýleg skoðanakönnun bendir til þess að 49% frönsku þjóðarinnar líki vel við þá hugsun að hann verði næsti forseti landsins en ljóst að hann á eftir að ávinna sér traust vinstrimanna sem telja hann of frjálslyndan.