Parísarsamkomulagið of veikburða

Þjóðarleiðtogar hafa fundað um hvernig Parísarsamkomulaginu verður framfylgt í Marrakech …
Þjóðarleiðtogar hafa fundað um hvernig Parísarsamkomulaginu verður framfylgt í Marrakech í Marokkó undanfarna daga. AFP

Jafnvel þó að aðildarríki Parísarsamkomulagsins standi við fyrirheit sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda dugir það ekki til að ná markmiðinu um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) telur að hlýnunin nái 2,7°C fyrir árið 2100 með núverandi fyrirheitum ríkjanna.

Í árlegri skýrslu IEA um horfur í orkumálum heimsins kemur fram að mögulegt sé að ná þeim markmiðum sem lönd heims hafa sett sér um að draga úr losun og að það muni hægja á loftslagsbreytingum. Þau markmið séu hins vegar ekki líkleg til að halda hlýnun jarðar „vel innan við“ 2°C eins og stefnt er að í Parísarsamkomulaginu.

Stofnunin telur það nær ómögulegt að ná metnaðarfyllsta markmiði samkomulagsins um 1,5°C hlýnun, að því er kemur fram í umfjöllun New York Times.

„Umbreytingin sem þarf til að raunhæfur möguleiki sé á að haldast innan við hitastigsmarkmiðið um 1,5°C er veruleg,“ segir í skýrslunni.

Mikill uppgangur í endurnýjanlegum orkugjöfum

Góðu fréttirnar eru þó að mikill uppgangur er í endurnýjanlegum orkugjöfum í heiminum. Þannig jókst framleiðslugeta hreinnar orku meira á síðasta ári en kola, olíu og kjarnorku samanlagt. Þrátt fyrir það telur IEA að jarðefnaeldsneyti eigi enn eftir að leika stórt hlutverk í orkubúskap jarðarbúa um mörg ókomin ár, sérstaklega jarðgas sem sé að taka við af kolum í miklum mæli.

Fatih Birol, framkvæmdastjóri IEA, segir að nú sé jarðefnaeldsneyti um 81% af orkubúskap mannkynsins. Gangi landsmarkmið sem þjóðir hafa skilað inn vegna Parísarsamkomulagsins eftir verði hlutfallið komið niður í 74% árið 2040.

Framkvæmdastjórinn vill ekki tjá sig um hvaða áhrif kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna hefur á spár stofnunarinnar. Trump hefur kallað loftslagsbreytingar „gabb“ og hótað því að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Birol segir hins vegar að stofnunin muni fylgjast náið með því til hvaða aðgerða ríkisstjórn hans muni grípa.

Frétt New York Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert