Tveir fyrrverandi framkvæmdastjórar Atlantshafsbandalagsins hafa kallað eftir leiðtogafundi þegar Donald Trump hefur tekið við forsetaembættinu, til að fullvissa bandamenn Bandaríkjanna að þau muni koma þeim til varnar ef á þarf að halda.
Anders Fogh Rasmussen og forveri hans Jaap de Hoop Scheffer hafa einnig varað Trump við því að komast að óígrunduðu samkomulagi við Vladimir Pútín Rússlandsforseta um að láta Rússum eftir Krímskaga og austurhluta Úkraínu.
Segja þeir að það myndi setja fordæmi og opna á frekari „þenslu“ Rússlands á svæðinu. Rasmussen segir það einnig myndu hafa afleiðingar annars staðar í heiminum.
Á meðan kosningabaráttunni stóð sagði Trump að svo virtist sem íbúar Krímskaga vildu vera undir stjórn Rússa og að hann myndi skoða að viðurkenna innlimun Rússa, sem alþjóðaglæpadómstóllinn hefur sagt jafngilda hernámi.
Frétt mbl.is: Segja skilið við alþjóðaglæpadómstólinn
Þá sagði Trump í samtali við New York Times að bandamenn Bandaríkjanna myndu þurfa að endurgreiða Washington fyrir veitta aðstoð, ellegar vera sagt: „Til hamingju, þú þarft að verja þig sjálfur.“
Barack Obama Bandaríkjaforseti er nú staddur í Evrópu og hefur freistað þess að fullvissa bandamenn um að Trump hyggist ekki stofna Nató-samstarfinu í hættu.
Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.