Rýnt í huga kjósenda Trump

„Þetta voru fordómatengd viðhorf, viðhorf til kynjahlutverka, viðhorf til svartra og viðhorf til þess að viðhalda forréttindum hvítra,“ segir Hulda Þórisdóttir dósent um hvað hafi ráðið úrslitum í huga bandarískra kjósenda við kjöri á forseta landsins í síðustu viku.

Tekjur hafi ekki haft jafn mikil áhrif á úrslit kosninganna og áður var haldið.

Þetta kom fram í erindi Huldu sem er dósent við sálfræði og stjórnmálafræðideildir HÍ á málþingi sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í hádeginu um kjörið á Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna.

Hún segir liggja fyrir að hjónabandsstaða hafi skipt máli, þeir sem eru giftir voru líklegri til að kjósa Trump. Eftir því sem menntunarstig er lægra því var líklegra að Trump yrði fyrir valinu og þá voru hvítir einnig líklegri kjósa auðjöfurinn.

Þessar breytur segir hún að tengist einu mest rannsakaða félagssálfræðilega fyrirbæri sem þekkist en það er svokallaður valdsmannspersónuleiki eða authoritarianism, sem var mikið rannsakað á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina.

Kjósendur sem hafi persónueiginleika sem mælist hátt á þeim kvarða hafi kosið Trump vegna ákveðinna leiðtogaeiginleika sem hann hefur. Skilaboð hans eru skýr og hann er árásagjarn og boðskapur hans um að færa Bandaríkin aftur til fyrri vega þar sem gildin voru önnur og betri í þeirra huga segir Hulda.

Í myndskeiðinu útskýrir Hulda hugtakið valdsmannspersónluleiki og hvernig Trump höfðar til þeirra sem hafa slík persónueinkenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert