Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls segir mögulegt að Marine Le Pen, formaður Front National (Þjóðfylkingarinnar) verði kjörin forseti Frakklands næsta vor. Faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, er hinsvegar ekki sannfærður um það en það andar köldu milli þeirra feðgina eftir að hún lét reka hann úr flokknum.
Marine Le Pen segir sjálf að ef hún fari með sigur af hólmi í forsetakosningunum þá muni heimurinn verða öruggari. Þar sem Frakkland muni bæði starfa með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump og forseta Rússlands, Vladimír Pútín.
Hún segir að alls staðar í heiminum séu þeir sem berjast gegn ráðandi öflum og ríkjandi sjónarmiðum að ná sínu fram. Hún segir að Brexit og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sýni svart á hvítu þær breytingar sem eiga sér stað. Heimshreyfing þeirra sem standa gegn alþjóðavæðingu, eyðandi öflum öfga-frjálshyggju, útrýmingu þjóðríkja og hvarf landamæra.
Le Pen sagði við upphaf kosningabaráttu sinnar í gær að hún væri sannfærð um að franska þjóðin myndi fylgja í kjölfar Breta og Bandaríkjamanna.
Marine Le Pen ætlar, ef hún verður kjörin forseti, að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Frakka að ESB, líkt og Bretar gerðu í sumar og endurvekja landamæraeftirlit. Aðspurð um hvaða áhrif kjör hennar hefði á heiminn segir hún að með því væri kominn grunnur að bandalagi Frakka, Bandaríkjamanna og Rússa. Það yrðu góðar fréttir fyrir heimsfriðinn, segir Le Pen.
Valls sagði aðspurður á ráðstefnu í Berlín í morgun að það væri möguleiki að Le Pen yrði næsti forseti Frakklands. Talið er nánast fullvíst að hún komist í aðra umferð kosninganna þegar kosið er á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem fá flest atkvæði í fyrri umferðinni.
„Þetta þýðir að valdajafnvægið í stjórnmálum mun riðlast fullkomlega,“ segirValls og varar við hættunni sem fylgi skoðunum öfgahægrimanna.
Alain Juppé sækist eftir því að verða fulltrúi Les Republicains í komandi kosningum.
AFP
Í kvöld munu þeir sem sækjast eftir því að verða fulltrúar Repúblikanaflokksins í komandi forsetakosningum takast á í pallborðsumræðum en á sunnudag greiða flokksmenn atkvæði um mögulegan frambjóðanda flokksins.
Miklar líkur eru á að frambjóðandi Repúblikanaflokksins komist áfram í seinni umferðina ásamtLe Pen en sú síðarnefnda er þegar með 25-28% fylgi í skoðanakönnum. Sömu kannanir benda til þess að hún lúti í lægra gras fyrir frambjóðanda repúblikana. Ekkert er hins vegar útilokað í þeim efnum og að sögnMarineLe Pen er ekkert meitlað í stein þegar kemur að kjördegi.
Fastlega er gert ráð fyrir því að annað hvort Nicolas Sarkozy fyrrverandi forseti Frakklands eða Alain Juppé, fyrrverandi forsætisráðherra, verði frambjóðandi repúblikana. Sarkozy, sem ekki nýtur jafn mikilla vinsælda og Juppé, hefur í mörgum málum svipaðar skoðanir og Marine Le Pen. Hann vill draga úr fjölda innflytjenda og losna við meinta harðlínu-íslamista úr landi.
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands.
AFP