Endalokin fyrir loftslagið?

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. AFP

„Kjör Trumps er svakalegt bakslag fyrir tilraunir manna til að stöðva hlýnun jarðar. Hann skilur einfaldlega ekki að hlýnun jarðar er veruleg ógn við mannkyn,“ segir Stefan Rahmstorf, prófessor í sjávareðlisfræði við Potsdam-háskóla, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Rahmstorf segir það mikil vonbrigði að Trump ætli að draga Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum; samkomulagi sem tekið hafi ríki heims tvo áratugi að komast að. „Hann hefur þegar fengið lobbíista úr olíuiðnaðinum til liðs við sig og er byrjaður að vinna að úrsögn. Við erum þegar í kapphlaupi við tímann þegar kemur að því að minnka losun á heimsvísu til að freista þess að halda hlýnun vel innan við tvær gráðurnar. Standi Bandaríkin, annar mesti koltvísýringslosandinn í heiminum á eftir Kína, ekki við sínar skuldbindingar verður mun erfiðara að ná markmiðum Parísarsáttmálans.“

Michael E. Mann, forstöðumaður Earth System Science Center við Pennsylvania State-háskólann, tekur í sama streng. „Valdatíð Trumps í Hvíta húsinu gæti þýtt endalokin fyrir loftslagið. Vera hans þar gæti komið í veg fyrir að okkur takist að halda hnattrænni hlýnun innan hættumarka, það er að hún verði ekki meiri en tvær gráður til næstu aldamóta.“

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags á Veðurstofu Íslands, segir að fróðlegt verði að fylgjast með því hvernig Trump ætli að víkja sér undan Parísarsáttmálanum. „Langeinfaldast fyrir hann yrði að hunsa sáttmálann; taka ekki þátt enda þótt Bandaríkin séu búin að skrifa undir. Það er hins vegar spurning hvort sú leið er nógu dramatísk fyrir Trump. Það kæmi mér ekki á óvart að hann færi í hasarstríð gegn Parísarsáttmálanum og reyndi jafnvel að taka fleiri samninga með sér í leiðinni. Reuters nefndi Rammasamkomulag Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í þessu sambandi. Þá er þetta orðið ennþá alvarlegra mál. Annars er ómögulegt að átta sig á því hvað Trump gerir. Ætlar hann til dæmis að ganga milli bols og höfuðs á bandarísku umhverfisstofnuninni, EPA?“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf.
Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf. Rax / Ragnar Axelsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert