Fordæmi í svörtum kafla í sögunni

Bandaríkjamenn af japönskum ættum voru fluttir með lest frá Los …
Bandaríkjamenn af japönskum ættum voru fluttir með lest frá Los Angeles í fangabúðir hundruð kílómetra í burtu. ljósmynd/Russell Lee/Bókasafn Bandaríkjaþings

Þegar talsmaður pólitískrar aðgerðanefndar sem studdi Donald Trump vísaði til kyrrsetningar Bandaríkjamanna af japönskum ættum í seinni heimsstyrjöldinni (e. Internment) sem fordæmi fyrir að ríkið haldi skrá um múslima fór um marga. Kyrrsetningin er talinn einn svartasti bletturinn á sögu Bandaríkjanna.

Carl Higbie, talsmaður pólitísku aðgerðanefndarinnar (super-pac) Great America greip til fordæmisins í viðtali við íhaldssömu sjónvarpsstöðina Fox News í vikunni en mikið hefur verið rætt um hugsanlegar fyrirætlanir ríkisstjórnar Trumps um að koma á fót skrá yfir innflytjendur frá löndum múslima.

„Við gerðum það með Japani í seinni heimstyrjöldinni,“ sagði Higbie sem lagði þó áherslu á að hann væri ekki að leggja til að setja fólk aftur í fangabúðir.

„Ég er bara að segja að það er fordæmi fyrir því,“ sagði hann.

Misstu eignir, sparifé og lífsviðurværi

Sögulega fordæmið sem Higbie taldi styðja það að halda skrá yfir innflytjendur af tilteknum uppruna átti sér stað í kjölfar árásar Japana á Peal Harbour í desember árið 1941. Árásin leiddi til móðursýki í Bandaríkjunum þar sem hollusta landsmanna sem áttu ættir að rekja til Japans var dregin í efa. Franklin D. Roosevelt, þáverandi forseti Bandaríkjanna, gaf út tilskipun sem leiddi til þess að rúmlega hundrað þúsund þeirra voru vistuð í fangabúðum þar til stríðinu lauk.

Meirihluti fólksins var bandarískir ríkisborgarar og bjó á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Fólkið var flutt í fangabúðir undir eftirliti Bandaríkjahers. Fjölmargir misstu fyrirtæki, sparifé og lífsviðurværi þegar þeir voru sendir í fangabúðirnar. Fólk fékk aðeins að taka með sér það sem það gat haldið á og þurfti að selja fyrirtæki og eigur á niðursettu verði, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post.

Aðbúnaður fólksins í fangabúðunum var oft og tíðum bágur. Skýlunum sem það hafðist við í hafði verið klambrað upp í flýti og oft var ekkert rafmagn, pípulagnir eða næði í boði. Sumir þeirra sem voru sendir í fangabúðirnar unnu á ökrum fyrir bændur.

Talin byggð á fordómum, stríðsæsingi og mistökum í forystu

Kyrrsetningu japanskra Bandaríkjamanna lauk árið 1946. Jafnvel þó að fólkið hefði fengið frelsi sitt aftur áttu margir áfram erfitt uppdráttar. Þeir komu úr fangabúðunum blásnauðir og samfélagið tók við þeim með ofbeldi og kynþáttafordómum.

Gerald Ford, þáverandi forseti Bandaríkjanna, fordæmdi kyrrsetninguna á 8. áratuginum og árið 1980 gaf ríkisstjórnin út skýrslu þar sem kom fram að hún hefði byggt á „kynþáttafordómum, stríðsæsingi og mistökum pólitískrar forystu“. Alls greiddi ríkisstjórnin 1,6 milljarða dollara í miskabætur til fólks sem var fleygt í fangabúðir.

Umfjöllun Washington Post um kyrrsetningu Bandaríkjamanna af japönskum ættum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert