Sátt hefur náðst í mál sem höfðað var á hendur Donald Trump vegna Trump University, en forsetinn tilvonandi hefur samþykkt að greiða 25 milljónir dala til 6.000 fyrrverandi nemenda háskólans, sem var ekki viðurkennd menntastofnun.
Samkomulagið forðar fasteignajöfrinum frá vandræðalegum málaferlum er hann undirbýr flutninga í Hvíta húsið.
„Hin 25 milljóna dala sátt er sláandi viðsnúningur af hálfu Donalds Trumps og stórsigur fyrir hin 6.000 fórnarlömb svika-háskóla hans,“ sagði Eric Schneiderman, yfirsaksóknari New York, í yfirlýsingu.
„Ég er ánægður með að samkvæmt skilyrðum sáttarinnar fær hvert fórnarlamb greiddar skaðabætur og Donald Trump mun greiða allt að milljón dali í sektir til New York fyrir að brjóta gegn lögum ríkisins um menntamál.“
Talsmaður skrifstofu Schneiderman sagði að sáttin næði til þeirra þriggja hópmála sem höfðuð voru gegn Trump University; tveggja í Kaliforníu og eins í New York.
Tilkynnt var um samkomulagið klukkustund áður en taka átti fyrir mál í San Diego þar sem úrskurða átti um beiðni Trumps um að fresta réttarhöldum í málinu.
Málið er sex ára gamalt en nemendur háskólans héldu því m.a. fram að þeir hefðu verið hafðir að féþúfu. Þeir greiddu allt að 35.000 dali í innritunargjald og var talin trú um að þeir myndu eiga framtíðina fyrir sér í fasteignaviðskiptum eftir að sérfræðingar sem Trump var sagður hafa valið sjálfur höfðu kennt þeim.
Lögmenn Trumps héldu því hins vegar fram að margir nemendur hefðu verið ánægðir með námið og þeir sem ekki næðu frama gætu aðeins sjálfum sér um kennt.
Skólinn var starfræktur á árunum 2005-2011.
Í febrúar tísti Trum að 98% nemenda hefðu reynst ánægð með námið. „Ég hefði getað samið en mun ekki gera það af prinsippástæðum!“