Repúblikaninn Mitt Romney, sem fór hörðum orðum um Donald Trump á meðan forval Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar vestanhafs stóð yfir, sagðist í dag hafa átt „yfirgripsmikið“ samtal við forsetann verðandi.
Fregnir herma að Trump sé að íhuga að útnefna Romney utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.
Fundur Trumps og Romney stóð í um 90 mínútur, en eftir fundinn tjáði Romney sig hvorki um það hvort honum hefði verið boðin staða í ríkisstjórn Trump né hvort hann hefði áhuga.
„Við áttum yfirgripsmikið samtal um ýmsa vettvanga í heiminum þar sem verulegir hagsmunir Bandaríkjanna eru undir,“ sagði Romney við blaðamenn. „Við ræddum þau mál og skiptumst á skoðunum um þau.“
Fundurinn átti sér stað á golfvelli Trump í New Jersey.
Þegar Romney gekk í átt að blaðamönnum að honum loknum, hrópaði Trump: „Þetta gekk frábærlega.“ Romney virtist í það minnsta fá góðar móttökur og tók í hendur Trumps og varaforsetans tilvonandi, Mikes Pence, við komuna.
Romney, sem kallaði Trump „svikahrapp“ á meðan kosningabaráttan stóð yfir, hefur annað viðhorf en fasteignajöfurinn til ýmissa mála. Hann hefur m.a. kallað Rússland helstu ógnina við Bandaríkin.