Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, komst ekki áfram í aðra umferð forvals franska Repúblikanaflokksins sem fór fram í dag. Hann hefur lýst yfir stuðningi við Francois Fillon sem náði efsta sæti í forvalinu fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.
Endanlegri talningu atkvæða er ekki lokið en Sarkozy hefur viðurkennt ósigur sinn. Alain Juppe, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, lenti í öðru sæti í forvalinu. Kosið verður á milli hans og Fillon á sunnudag um hvor þeirra verður forsetaframbjóðandi miðhægrimanna.
Fastlega er búist við því að sigurvegari forvalsins verði næsti forseti Frakklands. Sundrung ríkir á vinstri væng franskra stjórnmála og er Francois Holland, forseti úr röðum sósíalista, ákaflega óvinsæll meðal landsmanna.
Líklegast er að frambjóðandi repúblikana glími við öfgahægriframbjóðandann Marine Le Pen.