Angela Merkel sækist eftir fjórða kjörtímabili sínu sem kanslari Þýskalands til þess að verja lýðræðisleg gildi. Á fundi Kristilega demókrataflokksins þar sem hún tilkynnti formlega um framboðið sagðist hún búast við erfiðasta kosningaslagi sínum til þessa.
„Þessar kosningar verða erfiðari en nokkrar aðrar á undan þeim, að minnsta kosti frá sameiningu Þýskalands,“ sagði Merkel sem býr sig undir harðar hríðir frá bæði vinstri og hægri vængnum.
Sagðist Merkel hafa velt kostunum lengi fyrir sér en á endanum hafi hún talið það skyldu sína á þessum „sérstaklega erfiðu, jafnvel óöruggu tímum“ að bjóða sig fram aftur.
Vísaði hún til óvissunnar sem yfirvofandi útganga Breta úr Evrópusambandinu og kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna hefði skapað. Hún gerði sér grein fyrir því að heimsbyggðin liti nú til hennar eftir stöðugleika.
Frétt Mbl.is: Merkel vill fjórða kjörtímabilið