Forskot Hillary Clinton í forsetakosningunum vestanhafs eykst enn þá, í atkvæðum talið, og er hún nú með 1,7 milljónir atkvæða umfram verðandi forsetann Donald Trump.
Nú þegar síðustu atkvæðin eru talin hefur Clinton frengið 63,6 milljónir atkvæða, samanborið við 61,9 milljónir atkvæða Trumps. Þetta þýðir að hún hefur fengið fleiri atkvæði en nokkur annar forsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna, fyrir utan Barack Obama.
The Independent greinir frá þessu.
Samkvæmt þessum tölum hafa 48% atkvæðanna fallið í hlut Clinton á sama tíma og Trump hefur fengið 46,7% atkvæða. Enn er verið að telja atkvæði þeirra kjósenda sem gátu einhverra hluta vegna ekki staðfest hverjir þeir væru á kjörstað á kosningadegi.
Þetta forskot Clinton hefur þó lítil áhrif á niðurstöður kosninganna, þar sem hún fékk mun færri kjörmenn kosna fyrir sína hönd en Trump, og það er það sem ræður jú úrslitum í kosningakerfinu þar vestra.
Trump er nú þegar kominn með 290 kjörmenn á meðan Clinton hefur fengið 232. Búist er þá við að Michigan-ríki falli einnig hans megin, sem gæfi honum 16 kjörmenn til viðbótar. Þar hefur hann fengið 11 þúsund fleiri atkvæði en hún.
Trump virðist ósáttur við þá gagnrýni sem hann hefur fengið vegna þessa misræmis og segist hefðu unnið kosningarnar með meiri mun ef fjöldi atkvæða væri markmiðið.
If the election were based on total popular vote I would have campaigned in N.Y. Florida and California and won even bigger and more easily
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 15, 2016