Segir skordýraeitur hafa lækningamátt

Klerkurinn sést hér úða skordýraeitrinu framan í einn úr söfnuðinum.
Klerkurinn sést hér úða skordýraeitrinu framan í einn úr söfnuðinum. Skjáskot/Mountzion söfnuðurinn

Suður-afrískur klerkur sem úðar skordýraeitri í andlit safnaðarbarna sinna og fullyrðir að eitrið hafi lækningamátt, er nú harkalega gagnrýndur af mörgum notendum samfélagsmiðla, ekki síður en af framleiðanda skordýraeitursins sem segir athæfið kvíðvænlegt.

Presturinn sjálfskipaði, Lethebo Rabalgo, fullyrðir að Doom-skordýraeitrið hafi læknandi eiginleika og að það megi nota til að lækna fólk jafnt af HIV-veirunni sem krabbameini.

Fréttavefur BBC hefur eftir Rebalgo að hann noti óhefðbundnar aðferðir til að lækna fólk, en óhefðbundnar lækningaaðferðir sértrúarsafnaða njóta nú vaxandi vinsælda í Suður-Afríku. Þannig hlaut t.a.m. einn klerkur nýlega mikla gagnrýni fyrir að hvetja söfnuðinn til að borða snáka og gras og drekka eldsneyti í lækningaskyni, á meðan myndir birtust af öðrum klerk aka yfir safnaðarbörn sín.

Á Facebook og Twitter má sjá Rabalgo úða eitrinu beint í augu og á ýmsa aðra líkamshluta safnaðarbarna Mountzion-safnaðarins í Limpopo-héraðinu. Rebalgo sagði fréttamanni BBC að hann hefði úðað eitrinu í andlit konu sem var með augnsýkingu og að hún hefði það nú gott „af því að hún trúði á vald guðs.“

Hann fullyrðir líka að skordýraeitrið geti læknað krabbamein og HIV.

„Doom [e. örlög] er bara nafn, en þegar maður leggur á það að verða lækningavara þá gerist það. Fólk hlýtur lækningu í gegnum örlögin,“ segir í einni færslu á Facebook-síðu safnaðarins.

BBC segir suður-afrísk stjórnvöld nú vinna að því að koma á fót rannsóknarnefnd sem á að skoða atvik sem þessi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert