Stofnaður var nýr stjórnmálaflokkur í Noregi í dag sem hefur það eina stefnumál að landið segi upp aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Flokkurinn hefur fengið nafnið Bandalagið - Noregur úr EES. Formaður bráðabirgðastjórnar flokksins heitir Hans Jørgen Lysglimt Johansen og er þekktastur fyrir það í heimalandi sínu að hafa lýst opinberlega yfir stuðningi við Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum.
Frétt mbl.is: Vill endurskoða EES og Schengen
Fram kemur á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK að flokkurinn vinni nú að því að safna þeim 5 þúsund undirskriftum sem til þarf svo hann geti boðið fram við þingkosningarnar í Noregi næsta haust. Haft er eftir Johansen kjör Trumps og ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu þýði að kominn sé tími til þess að kalla eftir úrsögn Noregs úr EES. Fullveldi hafi glatast við aðildina að EES og það þyrftu Norðmenn að endurheimta.
Spurður hvort flokkurinn væri þjóðernissinnaður svarar Johansen að ef svo er sé um að ræða þjóðernishyggju með bros á vör. Landsfundur flokksins verður haldinn í lok mars.