Veitingastaðurinn Geranium, sem er eini danski veitingastaðurinn með þrjár Michelin-stjörnur, hefur verið sektaður af heilbrigðisyfirvöldum fyrir að geyma sjávarfang við of mikinn hita og of lengi.
Sektin hljóðar upp á 20 þúsund danskar krónur, sem svarar til 323 þúsund íslenskra króna. Geranium á að hafa geymt ferskan skelfisk, svo sem ostrur, humar og hörpuskel, við of mikinn hita og fram yfir leyfilegan neysludag, segir í ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins. Ákvörðunin er frá 29. september en rataði ekki í danska fjölmiðla fyrr en í gær.
Jafnframt er tekið fram að þegar eftirlitsmenn hafi farið um kæligeymslu veitingastaðarins hafi þeir tekið eftir svörtum, grænum og hvítum blettum undir hillunum og á niðursoðnum og pökkuðum hvítlauk.
Yfirmatreiðslumaður Geranium, Rasmus Kofoed, segist vera ósammála því sem fram kemur í athugasemd eftirlitsins. Niðurstaðan sé mjög orðum aukin en að vissu leyti geti hann tekið undir hluta þess sem þar komi fram. Mistökin hafi verið að hitamælar hafi ekki virkað sem skyldi en það hafi hins vegar ekki breytt því að skelfiskur sé alltaf geymdur á ís, hvað sem mælirinn segi.
Máltíðin á Geranium kostar tvö þúsund danskar krónur, rúmar 32 þúsund krónur, og ef fólk ætlar að panta borð verður það að greiða tryggingu upp á 750 danskar krónur, um það bil 12 þúsund íslenskar krónur, fyrir hvern gest.
Ekki er langt síðan Geranium fékk þrjár stjörnur í Michelin-handbókinni en Noma fékk aðeins tvær stjörnur þrátt fyrir að hafa verið valinn veitingastaður ársins ítrekað undanfarin ár.
Noma fékk áminningu frá heilbrigðisyfirvöldum í Danmörku árið 2013 fyrir að hafa ekki gripið til viðeigandi aðgerða eftir að starfsmaður í eldhúsinu sem var veikur bar ábyrgð á því að tugir gesta fengu matareitrun.