Myndi samþykkja lög um dauðarefsingu

Erdogan, forseti Tyrklands.
Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur varað Evrópusambandið við því að hann myndi samþykkja lög um að endurvekja dauðarefsingu í landinu ef þingið samþykkti þau.

„Lýðræði snýst um að virða vilja fólksins,“ sagði Erdogan í ræðu sem hann hélt í borginni Istanbúl.

„Ef fólkið segir „við viljum dauðarefsingu“ og þingið tekur málið fyrir og samþykkir það, þá lýsi ég því yfir að ég mun samþykkja lögin ef þau koma á mitt borð.“

Erdogan hótaði því fyrr í dag að opna landmæri Tyrklands fyrir flóttafólki.

Frétt mbl.is: Erdogan hótar að opna landamærin

Forsetinn lét ummælin falla eftir að hópur fólks kallaði eftir því, meðan á ræðu hans stóð, að dauðarefsing yrði endurvakin í landinu.  Það hefur ítrekað verið gert er hann hefur haldið ræður eftir að misheppnuð valdaránstilraun var gerð 15. júlí.

Erdogan sagði að ef hann samþykkti lög um dauðrefsingu myndi Mannréttindadómstóll Evrópu koma í veg fyrir að þau yrðu að veruleika en að það myndi litlu máli skipta.

Tyrknesk stjórnvöld afnámu dauðarefsingu árið 2004. Ráðamenn í Evrópusambandinu hafa margoft sagt að endurvakning dauðarefsingar kæmi í veg fyrir inngöngu Tyrkja í sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert