Frakkar hafa reitt Ísraela til reiði með nýjum reglum um sérlegar upprunarmerkingar á varningi sem framleiddur er á herteknum svæðum Palestínumanna.
Tilgangur Frakka með reglunum er að knýja á um að gildandi reglum um upprunarmerkingar á vörum sem fluttar eru inn til ESB-landanna frá Vesturbakkanum, austurhluta Jerúsalem og Gólanhæðum.
Á heimasíðu frönsku stjórnarinnar segir í álitsgerð og leiðbeiningum um reglurnar, að framangreind landssvæði séu „samkvæmt alþjóðalögum . . . ekki hluti af Ísrael.“ Segir í leiðbeiningunum að vöru frá þeim beri að merkja upprunanum, „ísraelskum landnámsbyggðum“.
Segist franska stjórnin vilja komast hjá því að „afvegaleiða neytendur“ varðandi uppruna vissra framleiðsluvara.
Ísraelar æfir
Utanríkisráðuneytið í Ísrael segist „harma að Frakkar skuli ýta undir aðgerðir sem túlka mætti sem hvatningu til öfgamanna.“ Saka Ísraelar Frakka um „tvöfeldni“ með því að einbeita aðgerðum sínum gegn Ísrael og kjósa í leiðinni að líta framhjá um 200 landamerkjadeilum um heim allan, eins og þar segir.
Deila þessi á uppruna sinn í nóvember í fyrra er framkvæmdastjórn ESB samþykkti að allar vöru frá herteknu svæðunum skyldi merkja svo ekki færi á milli mála hver uppruni þeirra væri. Ísraelar lýstu því strax þá að samþykktin væri „dulinn andgyðinglegur fjandskapur“. Frakkar eru fyrstir ESB-þjóða til að gefa út eigin leiðbeiningar á grundvelli samþykktarinnar frá í fyrra.