Leystur hefur verið vandi þeirra sem hjóla í bakaríið eftir hinu hefðbundna franska brauði, baguette, að minnsta kosti á Landernau-svæðinu á Jarðarenda, Finistère, á Bretaníuskaga í Frakklandi.
Þeir sem kaupa brauðsprotann annálaða hjá bakaranum Nicolas Le Darz þurfa ekki lengur að brjóta brauðið langa í tvennt til halda á því, spenna á bögglabera reið- eða mótorhjóls, eða renna því niður í bakpoka.
Le Darz hefur nefnilega tekið ómakið af mönnum með því að beygja deigið fyrir baksturinn. Með því móti er beygða bagettan mun þægilegri í meðförum fyrir hjólamenn og því auðfluttari.
Fréttin af þessu uppátæki bakarans hefur farið sem eldur í sinu um allt Frakkland og vakið mikla athygli. Hefur fjöldi bakara haft samband við Nicolas Le Darz og leitað ráða hjá honum um framleiðsluaðferðina.
Beygða brauðið kostar fimm centímum meira en óbeygð bagetta og réttlætir bakarinn það með því að meiri vinna liggi að baki. „Ímyndið ykkur að beygja 100 bagettudeig, það tekur tíma,“ svarar bakarinn við blaðið Ouest-France. Þar kemur fram að hann hafi í fyrstu bakað tæpan tug af beygða hjólabrauðinu. Nú dugi ekki minna en 30 á dag virka daga og 50 laugar- og sunnudaga.