Fillon eða Juppé?

Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar Frakklands takast í dag á um hvor þeirra verður forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins á næsta ári. 

Í fyrri umferðinni fékk François Fillon 44,1% atkvæða en Alain Juppé fékk 28,5% atkvæða. Fyrrverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hafnaði í þriðja sæti í fyrri umferðinni og er því úr leik.

Flestir spá því að næsta vor muni frambjóðandi repúblikana mæta framjóðanda þjóðernisflokksins Front National, Marine Le Pen, þar sem Sósíalistaflokkurinn, sem er nú við völd í Frakklandi, nýtur lítils stuðnings meðal landsmanna.

Kosning hófst klukkan 7 en lýkur klukkan 18 í dag. Bæði Fillon, sem er 62 ára, og Juppé, sem er 71 árs, vilja umbætur í efnahagsmálum en hafa mjög ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að standa að þeim og hversu hratt eigi að vinna. 

Fillon segir að Frakkar séu reiðir og vilji róttækar breytingar. Meðal þess sem Fillon ætlar sér er að leggja niður hálfa milljón opinberra starfa í landinu. 

Juppé vill fara varlegar í sakirnar og talar um fækkun starfa um 250 þúsund. Keppinautarnir mættust í sjónvarpssal í vikunni sem leið og töldu 71% aðspurðra hægrimanna að Fillon hafi verið meira sannfærandi. Ef horft var til áhorfenda úr öllum stjórnmálaflokkum var hlutfallið 57% Fillon í vil.

Fyrir forkosninguna töldu margir að Juppé yrði fyrir valinu en undanfarnar vikur hefur hann beint sjónum sínum að persónulegum sjónarmiðum Fillons. Svo sem varðandi fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra. En Fillon er andstæðingur beggja. Eins segir Juppé að keppinautur hans sé náinn Vladimír Pútín, forseta Rússlands. 

Segir Juppé að þetta séu fyrstu forsetakosningarnar í Frakklandi sem forseti Rússlands velur sér frambjóðanda, segir í frétt BBC.

Fillon segir að Evrópusambandinu og Bandaríkjunum sé uppsigað við útþenslu Rússa í Austur-Evrópu og hvetur til bandalags við Rússa í baráttunni við íslamska vígamenn í Sýrlandi. 

Fillon, sem er rómversk-kaþólskur, kvartar yfir því að honum er lýst eins og miðaldaíhaldsmanni og sakar andstæðing sinn um að vera kerfiskarl með engar alvöru áætlanir um breytingar. Eftir að hafa þurft að lúta í gras fyrir Fillon og Juppé fyrir viku þá greindi Sarkozy frá því að hann styddi framboð Fillons en sá síðarnefndi var forsætisráðherra Frakklands í forsetatíð Sarkozy.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka