Franska stjórnin mun bíða upplýsinga úr sakadómsrannsókn á útblæstri frá dísilbílum, bæði franska bílasmiðsins Renault og þess þýska Volkswagen, áður en ákveðið verður hvort lagt verði allsherjarbann við sölu dísilbíla frá fyrirtækjunum tveimur.
Þetta staðfestir franski umhverfisráðherrann Segolene Royal. Í umræðum á Evrópuþinginu í Strasbourg sagðist hún ekki útiloka allsherjarbann við sölu dísilbíla Renault og Volkswagen. Sagði hún sérstaka rannsókn standa yfir á hugbúnaði dísilvéla Renault og væri frumniðurstöðu að vænta í desember.
Í framhaldi af afhjúpun blekkingarbúnaðar í bílum Volkswagen í Bandaríkjunum í fyrra voru fleiri framleiðendur teknir til skoðunar í Evrópu. Í ljós hefur komið að meðal annars brúkaði Renault tól er drógu úr skilvirkni vélbúnaðar sem ætlað var að hreinsa lofttegundina nituroxíð (NOx) úr útblæstri.
Þá reyndust meðal annars í bílum Opel og Fiat vélarhugbúnaður er dró úr skilvirkni mengunarvarna bíla viðkomandi framleiðenda undir tilteknum veðurfarsaðstæðum og á vissu lofthitabili.
Menn greinir á um hvort hugbúnaður af þessu tagi sé löglegur en samkvæmt ESB-lögum er hann sagður leyfður þegar talið er nauðsynlegt til að vernda vélarnar. Þýsk yfirvöld segja lögin það óljóst orðuð að útilokað sé að hafa skilvirkt eftirlit með svikabúnaði er leiðir til meiri losunar gróðurhúsalofts en upp er gefið.