Munu Hollande og Valls takast á?

François Fillon var valinn með miklum yfirburðum til þess að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í frönsku forsetakosningunum næsta vor. Hins vegar gengur illa hjá sósíalistum að ákveða hver verður þeirra fulltrúi.

François Hollande, forseti Frakklands og Manuel Valls, forsætisráðherra, eru helst nefndir en Hollande er lítt vinsæll meðal Frakka og taldar litlar líkur á að hann yrði endurkjörinn forseti.

Manuel Valls og Hollande borðuðu hádegisverð saman í dag en orðrómur er um að hann hafi nýtt tækifærið til þess að tilkynna Hollande afsögn sína og að hann ætli að bjóða sig fram í forvali sósíalista. Hollande hefur ekki enn greint frá því hvort hann ætli að láta reyna á endurkjör. 

Valls hefur ekki gefið það út opinberlega að hann ætli fram en í viðtali við Journal du Dimanche í gær sagði hann: Ég er að verða tilbúinn.

Hann telur sig eiga mun meiri möguleika en Hollande en undanfarinn mánuð hefur Valls fært sig frá Hollande og gagnrýnt hann og stefnu hans opinberlega.

Talið er öruggt að Fillon muni fá flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna 7. maí og spár benda til þess að hann muni léttilega sigra Marine Le Pen, formann Front National í seinni umferðinni viku síðar.  Stjórnmálaskýrendur telja samt að Fillon verði aðeins að mýkja áherslur sínar, svo sem varðandi fækkun opinberra starfa um hálfa milljón og viðhorf til hjónabandsins en Fillon er kaþólskur. 

Í  gær fékk Fillon 66,5% atkvæða í forvali repúblikana en Alain Juppé fékk 33,5%. Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í dag fengi Fillon 67% atkvæða í seinni umferð forsetakosninganna en Le Pen 33%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert