Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, segir að rangar upplýsingar hafi valdið því að bandamenn með Bandaríkin í fararbroddi gerðu loftárás á Sýrland í september sem talið er að hafi orðið um 90 hermönnum sýrlenska stjórnarhersins að bana.
Samkvæmt Bandaríkjaher voru „mistök gerð í öflun gagna auk þess sem bandamenn áttuðu sig ekki nógu vel á réttri stöðu mála til að geta greint yfirmönnum sínum frá henni,“ sagði í yfirlýsingu frá hernum.
Rannsóknin á loftárásinni tók sex vikur en árásin var gerð skammt frá Deir Azzor 17. september.
Ástralskar, danskar, breskar og bandarískar herþotur tóku allar þátt í loftárásinni. Sýrlensk mannréttindasamtök segja að drepnir hafi verið að minnsta kosti 90 hermenn stjórnarhersins.
Pentagon kveðst aðeins hafa getað gert grein fyrir fimmtán dauðsföllum en viðurkenndi að líklega hefðu mun fleiri dáið.
„Í þessu atviki gerðum við ómeðvituð mistök sem við sjáum eftir. Mistökin voru byggð á mannlegum þáttum á þó nokkrum svæðum er við leituðum að skotmarkinu,“ sagði hershöfðinginn Richard Coe, sem rannsakaði málið.
Ein mistökin voru þau að herinn hélt að sýrlenskt farartæki væri í eigu Ríkis íslams. Einnig voru sýrlensku hermennirnir ekki í þannig búningum að hægt væri að bera kennsl á þá, auk þess sem þeir voru ekki með fána meðferðis sem sýndi hvaðan þeir komu.