Sex íþróttalið þurrkuð út í slysum

Minnisvarði um flugslysið í Andesfjöllum, sem var gert frægt í …
Minnisvarði um flugslysið í Andesfjöllum, sem var gert frægt í myndinni Alive. Wikipedia

Það hefur gerst a.m.k. sex sinnum að flugslys hafa höggvið stórt skarð í íþróttalið en það gerðist í fyrsta sinn árið 1949. mbl.is sagði frá því í morgun að 76 hefðu látist í flugslysi í Kólumbíu en meðal farþega var knattspyrnuliðið Chapecoen­se. Fimm komust lífs af.

Samkvæmt samantekt AFP gerðist það 4. maí 1949 að ítalska knattspyrnuliðið Torino fórst í flugslysi á leið frá Portúgal. Enginn komst lífs af en 31 var um borð. Milljón manns voru sagðir hafa safnast saman á götum Tórínó til að kveðja knattspyrnuhetjurnar. Harmleikurinn hafði verulegar afleiðingar fyrir ítalska landsliðið þar sem liðsmenn Torino voru máttarstólpar þess.

Árið 1958 komst enska knattspyrnuliðið Manchester United í undanúrslit Evrópumótsins með sigri í Belgrad, en vél liðsins fórst í blindbyl 6. febrúar eftir millilendingu í München. Átta liðsmenn United létu lífið í slysinu, þeirra á meðal stjörnuleikmaðurinn Duncan Edwards, og þrír úr áhöfninni. 31 lét lífið en knattspyrnustjórinn Matt Busby náði undraverðum bata og leiddi nýja sveit til sigurs á Evrópumótinu áratug síðar.

Stytta af Matt Busby stendur fyrir utan Old Trafford. Átta …
Stytta af Matt Busby stendur fyrir utan Old Trafford. Átta liðsmenn Manchester United létust í flugslysinu en Busby komst lífs af. Wikipedia/Bernt Rostad

Allir átján liðsmenn bandaríska listskautaliðsins létust þegar flugvél þeirra fórst í Belgíu 15. febrúar 1961 en liðið var þá á leiðinni á heimsmeistaramótið í Tékkóslóvakíu, þegar hún var og hét. Þrennt úr skautafjölskyldu var innanborðs; kvennameistarinn Laurence Owens 16 ára, systir hennar Maribel 20 ára og móðir þeirra og þjálfari, Maribel Vinson-Owen. Vinson-Owen var ólympíuverðlaunahafi.

Frægasta flugslys þar sem íþróttalið kom við sögu er án efa slysið sem úrúgvæska ruðningsliðið Old Christians lenti í árið 1972. Liðið var á leið til Síle ásamt fjölskyldum þegar vél þeirra brotlenti í Andesfjöllum 13. október. Átján létust samstundis og ellefu nokkru síðar, margir í snjóflóði sem fór yfir flak vélarinnar. Tveir eftirlifenda gengu í tíu daga til að sækja aðstoð og sextán var bjargað meira en tveimur mánuðum eftir slysið. Fólkið hafði þá gripið til þess ráðs að neyta hinna látnu til að halda lífi.

Árið 1987 fórst perúsk herflutningavél með 43 liðsmenn og starfsmenn elsta knattspyrnuliðs landsins, Alianza Lima, innanborðs. Fór hún í sjóinn undan ströndum Lima 8. desember. Vélin var á leið til höfuðborgarinnar frá frumskógarborginni Pucallpa þegar flugmaðurinn tilkynnti um vandamál með lendingarbúnaðinn. Flugmaðurinn komst lífs af og var bjargað úr sjónum þegar nokkrir klukkutímar voru liðnir frá slysinu.

Frá minningarathöfn um liðsmenn Lokomotiv Yaroslavl.
Frá minningarathöfn um liðsmenn Lokomotiv Yaroslavl. Wikipedia/Kremlin.ru

Allir liðsmenn rússnesku fyrstu deildar íshokkíliðsins Lokomotiv Yaroslav létust í flugslysi 7. september 2011, þegar vél þeirra fórst skömmu eftir flugtak í Minsk. Meðal liðsmanna var sænska íþróttastjarnan Stefan Liv. Alls létust 44 í slysinu. Einn leikmaður lifði slysið en lést nokkrum dögum síðar. Sá eini sem komst lífs af var flugverkfræðingurinn um borð. Rannsókn leiddi í ljós að annar flugmannanna hefði virkjað bremsur vélarinnar fyrir slysni, en hinn reyndist hafa innbyrt bönnuð lyf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert