Skipta ökuskírteininu út fyrir afslátt

Japanskir bílstjórar yfir 75 ára aldri eru hvattir til að …
Japanskir bílstjórar yfir 75 ára aldri eru hvattir til að afhenda yfirvöldum ökuskírteini sín. AFP

Bílslysum sem rekja má til aldurs bílstjóra fer fjölgandi í Japan. Yfirvöld hafa því brugðið á það ráð að bjóða afslátt gegn því að bílstjórar 74 ára og eldri afhendi ökuskírteini sitt og hætti að keyra.

Umferðarslysum í Japan hefur farið fækkandi á síðustu árum en slysum er varða bílstjóra yfir 74 ára hefur á sama tíma fjölgað úr 7,4% í 12,8%. Líklegt er að rekja megi fjölgunina til hækkandi aldurs Japana en um 4,5 milljónir Japana yfir 75 ára eru með ökuskírteini. Árið 2005 voru 2,4 milljónir bílstjóra yfir 75 ára og því hefur hópurinn tvöfaldast á rúmum tíu árum.

Í frétt Guardian um aðgerðirnar kemur fram að mörg slysanna megi rekja til þess að menn ruglast á bensíngjöfinni og bremsunni eða keyra á vitlausum vegarhelmingi á hraðbrautum eftir að hafa farið í gegnum tollhlið. Þá segir að hluti þessara slysa endi í dauðsfalli.

Í héraðsstjóraembættinu Aichi hófust aðgerðir í síðustu viku og býðst eldri bílstjórum nú afsláttur á ramen-núðlum á veitingahúsum Sugakiya-keðjunnar ef þeir skila inn ökuskírteini sínu.

Önnur héruð hafa hafið svipaðar aðgerðir til að hvetja eldri bílstjóra til að afhenda ökuskírteinin. Til að mynda eru veittir afslættir í sento-böð, á rakarastofum og hjá apótekurum. Þá er þeim gefinn afsláttur af leigubílum og almenningssamgöngum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert