Staðfesta að 76 fórust með vélinni

Leikmenn og stjórnendur Chapecoense voru um borð í vélinni á …
Leikmenn og stjórnendur Chapecoense voru um borð í vélinni á leið til Medellín til að leika úrslitaleik í Copa Sudamericana. AFP

Kólumbíska lögreglan hefur nú staðfest að 76 af þeim 81 sem var um borð í farþegaflugvélinni sem hrapaði í nótt hafi farist. Sex manns var bjargað á lífi úr flaki vélarinnar en einn þeirra hafi látist af sárum sínum á sjúkrahúsi. Auk brasilíska fótboltaliðsins Chapecoense var hópur blaðamanna um borð í vélinni.

Breska blaðið The Guardian segir nú að markvörðurinn Danilo, varamarkvörðurinn Jakson Follmann, varnarmaðurinn Alan Ruschel, blaðamaðurinn Rafael Henzel og áhafnarstarfsmaðurinn Ximena Suárez séu þau sem komust lífs af.

Frétt Mbl.is: Óttast að 75 hafi farist

Yfirvöld í Kólumbíu segja að lík farþeganna og áhafnarinnar verði sótt þegar birta fer af degi. Erfiðar aðstæður hafa verið á slysstað, þoka og rigning, sem hefur torveldað allt björgunarstarf. 

Enn er ekki vitað hvað grandaði vélinni sem var af gerðinni British Aerospace 146. Sumar heimildir segja að stjórnendur hennar hafi tilkynnt um rafmagnstruflanir áður en hún hrapaði en aðrar herma að vélin hafi orðið eldsneytislaus.

Einhverjir stuðningsmenn Capacoense hafa komið saman við heimavöll liðsins til að syrgja í morgunsárið. Liðið var á leið til Medellín til að leika fyrri leik í úrslitum Copa Sudamericana þegar flugvélin fórst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert