Yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA varar við því að það yrði hörmulegt ef Donald Trump riftir samningi sem heimsveldin gerðu við írönsk stjórnvöld til að stöðva kjarnorkuáætlun þeirra. Mike Pompeo sem Trump hefur tilnefnt sem næsta yfirmann CIA er andstæðingur samningsins.
Bandaríkin ásamt hinum fastaþjóðunum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna auk Þýskalands og Sameinuðu þjóðanna gerði samkomulag við írönsk stjórnvöld í fyrra. Samkvæmt því er slakað á viðskiptabanni gegn Íran gegn því að stjórnvöld þar stöðvi kjarnorkuáætlun sína.
„Ég tel að það væri hámark flónskunnar ef næsta ríkisstjórn riftir þeim samningi. Það yrði hörmulegt, virkilega,“ segir John Brennan, forstjóri CIA við breska ríkisútvarpið BBC. Það væri nærri því fordæmalaust að ný ríkisstjórn rifti samningi sem fyrri stjórn hefði gert.
Afleiðing riftunar samningsins gæti verið sú að Íranar hefji þróun kjarnorkuvopna og önnur ríki á svæðinu fylgi í fótspor þeirra með hernaðarátökum. Pompeo, sem tekur brátt við af Brennan, hefur verið einarður andstæðingur samkomulagsins við Írani. Í kosningabaráttunni hótaði Trump að rifta samningnum en eftir að hann náði kjöri hefur hann verið orðvarari um það.
Í viðtalinu við BBC fullyrti Brennan jafnframt að bæði sýrlenski stjórnarherinn og Rússar bæru ábyrgð á fjöldamorðum á óbreyttum borgurum sem væru svívirðileg. Telur hann að Bandaríkjamenn eigi áfram að styðja hófsama uppreisnarmenn í Sýrlandi til að standast áhlaup sýrlenska hersins, Írana, Hezbollah og Rússa.
Lýsir hann efasemdum um að Rússar hafi áhuga á nokkurs konar samkomulagi um Sýrland. Þeir hafi ekki komið fram af heilindum í viðræðum og reynt að draga þær á langinn til þess að þrengja að Aleppo sem stjórnarherinn er nú við það að ná aftur á sitt vald úr höndum uppreisnarmanna.
„Ég hef ekki trú á að Rússar gefi eftir þangað til þeir ná eins miklum árangri á vígvellinum og þeir geta,“ segir Brennan sem telur Trump og ríkisstjórn hans þurfa að gæta sín á loforðum Rússa sem séu ekki áreiðanleg.
Brennan staðfestir í viðtalinu að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar í Bandaríkjunum með tölvuinnbrotum og með því að birta upplýsingar. Hann hafi rætt við rússneska starfsbræður sína um það og varað þá við því að þær aðferðir myndu koma í bakið á þeim. Varaði hann hins vegar við því að bandarísk stjórnvöld legðust svo lágt að svara í sömu mynt.
Þá varaði fráfarandi forstjóri leyniþjónustunnar Trump við því að taka aftur upp vatnspyntingar eins og forsetinn verðandi talaði um í kosningabarátunni. CIA hafi orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna pyntinga í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september árið 2001.
„Ég held að yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna CIA vilji ekki fara aftur út í þá sálma,“ segir Brennan.