Voru á leið í sinn stærsta leik

Knattspyrnuheimurinn minnist leikmanna brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense en liðið nánast þurrkaðist út í flugslysi í gær. Liðið var á leið í sinn stærsta leik – úrslitaleik Copa Su­da­mericana, næst­stærstu keppni fé­lagsliða í Suður-Am­er­íku.

Aðeins sex af þeim 77, sem voru um borð í leiguflugvélinni sem fórst skammt frá kólumbísku borginni Medellín aðfararnótt þriðjudags, komust af. Keppinautar þeirra á knattspyrnuvellinum, kólumbíska liðið Atlético Nacional, hafa boðist til þess að gefa leikinn til þess að tryggja að Chapecoense-liðið verði lýst sigurvegari keppninnar.  Forsvarsmenn félagsins hafa einnig hvatt stuðningsmenn þess til þess að koma á leikvanginn á þeim tíma sem leikurinn átti að fara fram og klæðast hvítu.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá öllum knattspyrnuliðum Brasilíu sem spila í efstu deild er Chapecoense boðið að fá leikmenn að láni án greiðslu. Jafnframt hefur verið óskað eftir því að tryggt verði að liðið verði ekki fært niður um deild næstu þrjú árin. 

Nokkrir þekktustu knattspyrnumenn heims, svo sem Pele og Maradonna, og stjörnur Barcelona, Lionel Messi og Neymar, hafa minnst þeirra sem fórust í slysinu.

Heimildir AFP-fréttastofunnar í Kólumbíu herma að jafnvel sé talið að flugvélin hafi orðið eldsneytislaus en engin sprenging varð í vélinni þegar hún brotlenti. Báðir flugritar flugvélarinnar eru fundnir og verða rannsakaðir innan tíðar.

Einn þeirra sem lifðu af, markmaðurinn Jackson Ragnar Follmann, var aflimaður í gær en taka þurfti af honum hægri fótinn, samkvæmt upplýsingum frá San Vicente Foundation-sjúkrahúsinu. Ástand hans er sagt stöðugt en hann er á gjörgæslu.

Varnarmaðurinn Alan Ruschel lifði slysið af en hann er með mænuskaða. Annar varnarmaður, Helio Zemper Neto, er með áverka á höfði og brjósti. Markmaðurinn Marcos Padilha, sem er einnig þekktur undir heitinu Danilo, var bjargað úr flakinu á lífi en lést á sjúkrahúsi.

Af 21 blaðamanni um borð störfuðu sex fyrir Fox Sports Brasil og flestir hinna hjá Globo-fjölmiðlafyrirtækinu. Þeir fórust allir fyrir utan einn í slysinu.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert