Slæleg vinnubrögð fjölmiðla hafa gert þá að nokkurs konar „upplýsingaþvottavélum“ að mati grínistans og þjóðfélagsrýnisins Jons Stewart. Þrátt fyrir það telur hann að betri fréttaflutningur hefði ekki breytt niðurstöðu forsetakosninganna vestanhafs.
Stewart stjórnaði ádeiluþættinum Daily Show á Comedy Central við miklar vinsældir í sextán ár þar sem hann skaut reglulega föstum skotum á bæði fjölmiðla og stjórnmálamenn. Á kynningu fyrir nýja bók um þáttinn á vegum New York Times í vikunni hélt Stewart uppteknum hætti.
Sagði hann þunna línu á milli þess sem hefur verið kallað gervifréttir og raunverulegra frétta. Ástæðan sé tilhneiging alvörugefnari fjölmiðla til að birta fréttir eftir óstaðfestum heimildum eða vitna í fréttir annarra, oft án þess að kanna trúverðugleika heimildamanna þeirra frétta.
Þannig birti jafnvel alvörufjölmiðlar fréttir sem byggist á bloggfærslum eða öðrum heimildum með óþekktan trúverðugleika. Jafnvel þó að þeir vitni til þessara heimilda sinna þá vitni aðrir fjölmiðlar sem taka síðan fréttir þeirra upp ekki til upphaflegu heimildarinnar.
„Þessar upplýsingar er núna búið að þvo,“ sagði Stewart og vísaði til þess að upphaflega fréttin, hvort sem hún hafi verið trúverðug í upphafi eða ekki, fái við þetta aukinn trúverðugleika við það að fjölmiðlar sem eiga að vera vandir að virðingu sinni taki þær upp.
„Fjölmiðlar eru orðnir að upplýsingaþvottavél,“ segir Stewart að því er kemur fram í frétt Quartz.
Þá hafnaði hann þeirri kenningu að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hefðu farið á annan veg ef fjölmiðlar hefðu staðið sig betur. Nefndi hann Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna á Bretlandi sem dæmi. Þar hafi nálgun breska ríkisútvarpsins til dæmis verið mun yfirvegaðri en CNN.
„Trump gerðist ekki vegna þess að CNN er ömurlegt. CNN er bara ömurlegt,“ sagði Stewart.