Var varaður við eldsneytisskorti

Stuðningsmenn Chapecoense kveikja á kertum á heimavelli liðsins í Santa …
Stuðningsmenn Chapecoense kveikja á kertum á heimavelli liðsins í Santa Catarina í Brasilíu. Flytja á lík hinna látnu heim til Brasilíu í dag. AFP

Flugmaður farþegaþotunnar sem hrapaði í Kólumbíu á mánudag var varaður við því að hann hefði mögulega ekki með nógu mikið eldsneyti, áður en vélin lagði af stað frá flugvellinum í Bólivíu.

Bólivíska dagblaðið Deber greinir frá því að starfsmaður flugvallarins hafi vakið athygli á þessu eftir að hafa kynnt sér flugáætlun vélarinnar. 71 fórst í slysinu, m.a. liðsmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense, en einungis sex lifðu slysið af.   

Að sögn fréttavefjar BBC verða lík hinna látnu flutt aftur til Brasilíu í dag.

Yfirvöld í Kólumbíu hafa sagt frá því að sífellt fleira bendi til þess að flugvélin hafi verið orðin eldsneytislaus er hún reyndi að lenda á Medellin-flugvellinum og sérfræðingar hafa sagt að hún hafi í það minnsta verið orðin svo gott sem eldsneytislaus. Á upptöku af samræðum flugmannanna, sem lekið var til fjölmiðla, heyrist flugmaðurinn, Miguel Quiroga, vara við „algjörri rafmagnsbilun“ eða „eldsneytisskorti“.

Fékk loftferðaleyfi þrátt fyrir athugasemdirnar

Flugmálayfirvöld í Bólivíu afturkölluðu í gær flugleyfi leiguflugfélagsins LaMia, sem var að hluta til í eigu flugmannsins Quiroga og tveggja starfsmanna flugmálaeftirlitsins.

Bólivíska dagblaðið Deber fjallar um skýrslu yfirmanns á Santa Cruz-flugvellinum sem lýsti yfir áhyggjum af því að vélin væri ekki með meira eldsneyti en svo að það rétt dygði fyrir flugtímanum. Í skýrslunni lýsir hún því hvernig starfsmaður flugfélagsins, sem lést í slysinu, hafi sagt sér að flugmaðurinn væri þess fullviss að hann hefði nóg eldsneyti. Vélinni var gefið loftferðaleyfi þrátt fyrir athugasemdir hennar.

Yfirvöld í Bólivíu hafa enn ekki tjáð sig um skýrsluna.

Brasilíska dagblaðið O Globo hafði áður gefið í skyn að vegna tafa á brottför hafi verið hætt við að stoppa á flugvellinum í Cobija, sem er á landamærum Brasilíu og Bólivíu, til að taka eldsneyti þar sem sá flugvöllur er ekki opinn að næturlagi.

Flugumferðarstjórinn fékk líflátshótanir

Flugmaðurinn átti þess þá kost að taka eldsneyti í Bogota, að sögn blaðsins, en valdi þess í stað að halda áfram til Medellin.

Forstjóri LaMia, Gustavo Vargas, sagði á miðvikudag að flugvélin hefði átt að hafa nægt eldsneyti fyrir fjögurra og hálfs tíma flugs og að flugmaðurinn hafi haft fullt vald til að láta setja meira eldsneyti á vélina.

Fréttavefur BBC greinir þá frá því að kólumbíski flugumferðarstjórinn, sem var í sambandi við vélina rétt áður en hún hrapaði, hafi fengið líflátshótanir eftir slysið. „Ég gerði allt sem ég mögulega gat, mannlega og tæknilega, til að bjarga lífi farþeganna en því miður var það ekki nóg,“ skrifaði flugumferðarstjórinn Yaneth Molina í bréfi til kollega sinna, sem síðar var birt í fjölmiðlum.

Við komuna til Medellin hafði flugmaður LaMia óskað eftir leyfi til að lenda strax, en önnur flugvél fékk forgang vegna eldsneytisleka og þurfti flugvél LaMia því að bíða í sjö mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert