Dachau-hliðið fannst í Noregi

Járnhliðið er nú í vörslu lögreglunnar í Björgvin.
Járnhliðið er nú í vörslu lögreglunnar í Björgvin. AFP

Járnhliðið úr Dachau-útrýmingarbúðunum með áletruninni frægu „Vinnan frelsar“ sem var stolið fyrir tveimur árum er komið í leitirnar í Noregi. Lögreglan fann hliðið utan við Björgvin eftir að henni barst nafnlaus ábending. Hliðinu verður skilað eins fljótt og auðið verður.

Margrethe Myrmehl, talskona lögreglunnar í Björgvin, segir að hliðið hafi fundist undir beru lofti. Það sé í góðu ástandi þrátt fyrir að það hafi sjáanlega verið geymt úti. Ekki kom fram hvort að einhver hefði verið handtekinn í tengslum við þjófnaðinn.

Frétt Mbl.is: Járnhliði Dachau-stolið

Þjófnaðurinn uppgötvaðist 2. nóvember árið 2014. Það hvarf á laugardagskvöldi á milli eftirlitsferða öryggisvarða en engar öryggismyndavélar voru á staðnum. Lögreglan í Þýskalandi sagðist þá rannsaka hvort að nýnasistar stæðu að baki þjófnaðinum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði þjófnaðinn skelfilegan.

Gabriele Hammermann, forstöðumaður Dachau-útrýmingarbúðasafnsins, segir að hliðið verði aftur til sýnis þegar rannsókn yfirvalda ljúki og það verður gert upp.

Sænskur nýnasisti stal sambærilegu hliði úr Auschwitz-útrýmingarbúðunum árið 2009. Sá var handtekinn og fangelsaður í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert