Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, verður fyrsti japanski leiðtoginn til að heimsækja Pearl Harbor en hann er á leiðinni í opinbera heimsókn til Hawaii síðar í þessum mánuði. Þar mun hann ræða við Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Abe, sem verður á Hawaii 26. og 27. desember, mun heimsækja staðinn þar sem Japanar gerðu óvænta árás 7. desember 1941, sem varð til þess að Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina.
Obama heimsótti japönsku borgina Hiroshima í maí. Þar vörpuðu Bandaríkjamenn fyrstu kjarnorkusprengjunni undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Nokkrum dögum síðar vörpuðu Bandaríkjamenn annarri kjarnorkusprengju á japönsku borgina Nagasaki.
Abe hrósaði Obama í dag fyrir ræðuna . „Skilaboð hans um veröld án kjarnorkuvopna þegar hann heimsótti Hiroshima, eru greipt inn í hjörtu Japana,“ sagði hann og bætti við að hann vilji með fundinum á Hawaii senda heiminum skilaboð um enn sterkari tengsl Japans og Bandaríkjanna í framtíðinni.