Lögreglan í Washington handtók mann vopnaðan riffli á vinsælum pizzastað í borginni í gærkvöldi en staðurinn komst í fréttirnar í kringum bandarísku forsetakosningarnar vegna falskra frétta sem birtar voru um hann.
Byssumaðurinn, 28 ára frá Norður-Karólínu, hleypti af inni á staðnum en enginn særðist að sögn lögreglu.
Pizzastaðurinn, Comet Ping Pong í Chevy Chase-hverfinu, komst í fréttirnar í október þegar fréttir, um að þar væru höfuðstöðvar barnaníðshrings sem Hillary Clinton, sem þá var forsetaframbjóðandi demókrata, ræki, komust á kreik.
Frétt Mbl.is: Pítsustaður fórnarlamb lygafrétta
Fréttin fór víða og voru það einkum stuðningsmenn Trumps sem voru duglegir að dreifa henni á 4chan og Reddit. Eigandi staðarins fékk hundruð hótunarbréfa á Instagram-síðu sinni í kjölfarið. Síða Comet Ping Pong á Facebook yfirfylltist einnig af neikvæðum ummælum þeirra sem trúðu fréttinni. En þetta var aðeins ein af fjölmörgum fölsuðum fréttum sem fóru í umferð fyrir bandarísku forsetakosningarnar.
Maðurinn sem var handtekinn í gærkvöldi sagði lögreglu að hann hafi ákveðið að fara á staðinn til þess að rannsaka málið sjálfur, samsæriskenningu sem nefnist „pizzagate“.
Hann á að hafa gengið inn á veitingastaðinn, beint rifflinum að starfsmanni sem náði að forða sér á hlaupum og hringja í neyðarlínuna áður en maðurinn hóf skothríð inni á staðnum.