Repúblikanar segja ekkert hæft í því að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakjör Donalds Trump. Því er haldið fram að leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, hafi komist að því að Rússar beri ábyrgð á því að Trump náði kjöri. Demókratar vilja að málið verði rannsakað.
„Þessar upplýsingar eru rangar,“ segir Sean Spicer, talsmaður Repúblikana, við CNN. „Þetta gerðist aldrei.“
Upplýsingarnar sem Spicer segir rangar voru birtar í frétt dagblaðsins New York Times. Þar kom fram að CIA hefði trú á því að rússneskir tölvuhakkarar hafi átt við tölvur bæði hjá repúblikönum og demókrötum en hafi svo aðeins birt stolnar upplýsingar frá þeim síðarnefndu.
Washington Post greindi fyrst frá skýrslu CIA. „Þetta er sama fólkið og sagði að Saddam Hussein byggi yfir gereyðingarvopnum,“ segir talsmaður Trumps. Sjálfur segir Trump að kosningunum sé lokið og tímabært að halda áfram og vinna að því að „gera Bandaríkin frábær aftur.“
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði í gær að netárásir á meðan kosningabaráttan stóð yfir yrðu rannsakaðar. Árásirnar hafa verið bendlaðar við Rússa.
Frétt mbl.is: Segja Rússa bera ábyrgð á netárásum