Vladimír Pútín er valdamesti maður heims árið 2016, fjórða árið í röð. Á eftir honum fylgir Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti. Þetta kemur fram á árlegum lista tímaritsins Forbes, sem gefinn var út í dag.
„Forseti Rússlands hefur beitt áhrifum lands síns í næstum hverju einasta heimshorni,“ segir í umfjöllun tímaritsins. „Frá móðurlandinu til Sýrlands, og jafnvel í bandarísku forsetakosningunum, fær Pútín áfram það sem Pútín vill.“
Forsetinn, sem er 64 ára, er sagður laus við hefðbundnar skorður í alþjóðastjórnmálum. Vald hans hafi þá náð sífellt lengra síðustu ár.
Donald Trump, sem er í öðru sæti og tekur við embætti forseta eftir rúman mánuð, er þá sagður virðast ónæmur fyrir hneykslismálum, með báðar deildir Bandaríkjaþings sér til stuðnings, og með ríkidæmi metið á milljarða bandaríkjadala.
Þess má geta að Trump var í 72. sæti listans á síðasta ári.
Þriðja sæti fellur í skaut Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, sem hefur verið við völd þar í ellefu ár og sækist eftir endurkjöri á næsta ári.
Barack Obama Bandaríkjaforseti, sem var í öðru sæti listans á síðasta ári, er nú í 48. sæti eftir að flokkur hans fékk slæma útreið í nýliðnum kosningum.