50.000 enn föst í Aleppo

Særðir borgarbúar voru fluttir frá yfirráðasvæðum uppreisnarmanna í Aleppo í …
Særðir borgarbúar voru fluttir frá yfirráðasvæðum uppreisnarmanna í Aleppo í dag. AFP

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi og utanríkisráðherra Frakklands segja að 50.000 manns, þar á meðal 40.000 óbreyttir borgarar, séu enn fastir í austurhluta Aleppo þrátt fyrir samkomulag um brottflutning fólks úr borginni. Hundruð manna hafa verið fluttir úr borginni í dag.

Staffan de Mistura sem fer fyrir friðarsendinefnd SÞ segir að á meðal þeirra sem eftir eru séu 1.500 til 5.000 uppreisnarmenn og fjölskyldur þeirra. „Forgangsmál okkar er að samstarfsmenn okkar hjá SÞ verði með fólkinu [sem er búið að flytja burt] og að uppreisnarmenn verði virtir í samræmi við samkomulagið,“ segir hann.

Íbúar Aleppo sem hafa verið fluttir burt frá austurhluta borgarinnar í dag samkvæmt samkomulagi sem Rússar, sem styðja stjórnarherinn, og Tyrkir, sem styðja uppreisnarmenn, komu á fara til Idlib í norðvesturhluta Sýrlands sem er höfuðvígi uppreisnarmanna.

De Mistura varar hins vegar við því að ef varanlegt vopnahlé eða pólitískt samkomulag næst ekki verði Idlib að næsta Aleppo.

Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakklands, ítrekar ákall þarlendra stjórnvalda eftir því að eftirlitsmenn SÞ verði sendir til Aleppo eins fljótt og auðið er. Fjallað verður um það á fundi öryggisráðsins sem Frakkar hafa beðið um og verður að líkindum haldinn á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka