Forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, óskaði Sýrlendingum til hamingju með að hafa náð að „frelsa“ borgina Aleppo undan uppreisnarmönnum. Í dag hafa að minnsta kosti 1000 uppreisnarmenn og fjölskyldur þeirra verið flutt brott úr borginni vegna samkomulags um vopnahlé. Forsetinn sagði tímamótin vera söguleg í myndbandi sem forsetaembættið sendi frá sér á samfélagsmiðlum.
Stjórnarher Assad með fulltingi rússneskra loftárása og vopnaðra íranskra hópa hefur náð austurhluta borgarinnar úr höndum uppreisnarmanna.
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands, sagði að Assad gæti ekki setið við völd sem forseti landsins. Hann vísaði til þess að forseti sem stæði á bak við árásir á spítala í eigin landi væri ekki vært í embætti. Í ofan á lag stýrði hann einungis 40% af Sýrlandi, benti Fallon á. Hann bætti við að það væri mikilvægt að leita leiða til að ná pólitískri sátt í landinu.
Fallon og Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna tjáðu sig við fréttamenn eftir að hafa setið fund og rætt hvernig unnt væri að reyna að ráða niðurlögum Ríki íslams í Írak og í Sýrlandi.
Carter tók í sama streng og Fuller. „Stjórnarskipti eru eina leiðin til að binda enda á þjáningu Sýrlendinga,“ sagði Carter og fordæmdi um leið ofbeldisfulla framgöngu Rússa gegn uppreisnarmönnum í Aleppo.