Þeir sautján ráðherrar og yfirmenn stofnana sem Donald Trump hefur skipað í ríkisstjórn sína fram að þessu eiga saman meiri auðæfi en meira en þriðjungur bandarísku þjóðarinnar samanlagt. Samtals nema eignir þeirra meira en níu og hálfum milljarði dollara.
Vefsíðan Quartz fullyrðir að eignir þessara verðandi æðstu ráðamanna landsins séu meiri en 43 milljóna fátækustu heimila í landinu. Það sé meira en þriðjungur allra bandarískra heimila. Miðar fjölmiðillinn við tölur úr úttekt Seðlabanka Bandaríkjanna frá árinu 2013.
Þá kemur fram að það þyrfti 120.000 manns á miðgildislaunum í Bandaríkjunum til að jafnast á við fjóra ríkustu meðlimi ráðuneytis Trump, þau Betsy DeVos, verðandi menntamálaráðherra, Wilbur Ross jr. verðandi viðskiptaráðherra, Lindu McMahon, ráðherra minni fyrirtækja og Rex Tillerson, verðandi utanríkisráðherra.
Þess má geta að Trump á enn eftir að skipa í nokkurn fjölda embætta til viðbótar.
Umfjöllun Quartz um auðæfi ríkisstjórnar Trump